Stelpurnar töpuðu í firðinum

Snæfell og Haukar áttust við í lengjubikarnum í gær, spilað var í Hafnarfirði.

 

Haukar tóku á móti Snæfelli í Fyrirtækjabikar kvenna í kvöld í Schenkerhöllinni. Bæði lið voru taplaus fyrir viðureignina en það voru Haukar sem stóðu uppi sem sigurvegarar í kvöld og eru því ennþá taplausar eftir öruggan 87-70 sigur.
Lele Hardy var með tröllaleik fyrir Hauka, 33 stig og 23 fráköst. Hjá gestunum var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir ekki langt frá Hardy með 20 stig og 16 fráköst.
 
Leikurinn fór rólega af stað og var aðeins búið að skora átta stig, 6-2, eftir fjórar mínútur þar sem heimakonur þóttu mun árennilegri. Eftir það kveiknaði þó á Snæfellingum og jöfnuðu þær leikinn 8-8. Á því tímabili voru Gunnhildur Gunnarsdóttir og Lele Hardy komnar í villuvandræði með tvær villur hvor. Bjarna Magnússyni var ekki skemmt og lét vel í sér heyra og var hann farinn að dansa ansi nálægt þolinmæðislínu dómaranna. Hardy byrjaði annan leikhlutann á því að hirða fyrsta varnarfrákastið og hlaupa völlinn á enda og skora úr sniðskoti. Hardy var aftur í sviðsljósinu þegar hún varði skot Evu Margrétar Kristjándóttur það illilega að hún skall kylliflöt á bakið. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir bar af í leik Snæfellinga í fyrri hálfleik með 10 stig og 8 fráköst. Chynna Unique Brown kom svo sterk inn í lok hálfleiksins.
 
Eftir mjög jafnan fyrri hálfleik komust Snæfellingar 4 stigum yfir leiddar áfram af Gróu og Brown. Hardy tók þá til sinna ráða og setti niður tvo þrista með stuttu millibili og kom Haukum aftur yfir. Nokkru síðar áttu Haukar hraðaupphlaup þar sem að Hardy átti skemmtilega aftur-fyrir-bak sendingu á Gunnhildi. Undir lok leikhlutans var Hildur Sigurðardóttir búin að koma sér í gríðarleg vandræði þar sem að hún var umkringd þremur leikmönnum Hauka og ekki með neina sendingarlínu. Þá grípur hún til þess ráðst að stökkva upp úr þvögunni og gefur boltan frá sér til einskismannslands þar sem enginn á möguleika á boltanum nema hugsanlega hún, og henni til mikillar lukku kom leikmaður Hauka við boltann og því átti Hildur löglega sendingu á sjálfa sig og fékk við það gott skottækifæri sem hún nýtti. Í fjórða leikhlutanum átti Snæfell hraðaupphlaup þar sem að Brown og Gróa vildu ekki vera síðri en Hardy og Gunnhildur og léku sama leik þar sem Brown átti flotta aftur-fyrir-bak sendingu á Gróu. Á þessum tímapunkti voru Haukar komnir með nokkuð þæginlega forystu en Hildur reyndi þá að kveikja í sínum konum með því að smella niður þrist og minnka muninn í 9 stig. Það dugði þó ekki til og þegar Brown fékk sína fimmtu villu þegar þrjár mínútur lifðu leiks voru úrslitin svo gott sem ráðin.
Tekið af www.karfan.is