Sigur í Borgarnesi

Okkar menn nættu með nýjan leikmann á móti stemmningsliðinu Skallagrím í gær…
Það var þó gamli Skallagrímsmaðurinn sem stal senunni og gerði það sem þurfti til að vinna leikinn. 

Snæfell slapp með tvö stig út úr Fjósinu í kvöld þegar Hólmarar lögðu Skallagrím 86-89 eftir spennandi lokasprett. Hafþór Ingi Gunnarsson, af færibandinu í Borgarnesi, gerði út um leikinn á vítalínunni þegar skammt var til leiksloka. Vance Dion Cooksey vakti athygli fyrir frammistöðu sína í kvöld en hann er nýkominn til landsins og gerði 30 stig fyrir Snæfell í leiknum. Hjá Skallagrím var Mychal Green með 24 stig.

 

„Nei nei, það er bara gaman að spila í Borgarnesi,“ sagði Hafþór Ingi Gunnarsson í samtali við Karfan.is eftir leik aðspurður hvort það væri tregablandið að leika á uppeldisvellinum. Hafþór kláraði Skallagrím á línunni með tveimur vítum sem rötuðu rétta leið. „Ég hef áður tekið einhver vítaskot þarna og það var bara gaman að vera í þeirri stöðu að taka þessi skot,“ sagði Hafþór sem fannst Snæfell með tök á leiknum framan af.

 

„Við byrjuðum sterkt og höfðum góð tök á leiknum en Skallarnir komu til baka, fóru að hitta og fengu framlög frá fleiri leikmönnum en mér fannst þó að við hefðum átt að leiða með meiri mun í hálfleik. Við þurfum svo að bæta þriðja leikhlutann hjá okkur sem byrjaði þó ágætlega í kvöld en við gáfum eftir og svo varð fjórði leikhluti bara járn í járn,“ sagði Hafþór en Snæfell hafði það af að landa tveimur stigum og ekki síst fyrir tilstilli nýja mannsins, Vance Dion Cooksey, sem gerði 30 stig í sínum fyrsta leik með Snæfell og það nýkominn til landsins!

 

„Hann er ekkert almennilega kominn inn í hlutina hjá okkur, hann átti flottan leik og mér líst vel á hann, þetta er töffari,“ sagði Hafþór og viðurkenndi að þessi fyrstu stig tímabilsins hjá Snæfell væru léttir. „Já þetta er léttir, miðað við hvernig við lékum gegn Þór Þorlákshöfn þá fengum við smá blauta tusku í andlitið, þetta er einhver einbeitingarskortur sem við þurfm að laga,“ sagið Hafþór en í næsta leik verður svakalegur slagur í Stykkishólmi þegar sjóðheitir KR-ingar koma í heimsókn en röndóttir hafa skellt Grindavík og ÍR í fyrstu tveimur umferðunum.

 

„Já það eru meistaraefnin í næsta leik, það verður mjög gaman, það er áskorun að spila gegn þeim og við mættum þeim í Lengjubikarnum og þar fannst mér KR komið lengra en við. Fann það svona í leikjunum gegn þeim en nú verðum við bara að bæta okkur með hverjum leik enda langt í hann svo við rífum í járnin og tökum vel á því.“

 

Tekið af www.karfan.is
og myndin er tekin úr myndasafni leiksins frá Ómari Erni Ragnarssyni 

 

Myndbrot af Snæfellsrásinni er hérna: http://www.youtube.com/watch?v=HvFI0tsc9QA