Lélegt var það…

Snæfell mætti ofjörlum sínum í kvöld. 

KR mættu í galvaskir í Hólminn í Domino´s deild karla, án Shawn Atupem sem er floginn eitthvað annað en vesturbæingar voru einnig án Martins Hermannssonar sem sat í borgaralegum klæðum á tréverkinu vegna ökklameiðsla. Snæfellingar hins vegar búnir að eiga vikutíma með nýjum leikmanni, Vance Cooksey. Þess má geta að áhorfendur stóðu upp og sungu afmælissönginn fyrir Umf Snæfell sem varð 75 ára í gær 23. október.

 

Snæfell hóf leikinn með körfu frá Jóni Ólafi og Brynjar svaraði því með þrist hinu megin. KR spilaði þétta vörn og Snæfellsmenn urðu óákveðnir í sóknum sínum sem gaf KR forskot 7-13. Stefán Karel setti Magna fyrverandi leikmanni Snæfells hendur fyrir bolta og sýndi hver réði á því heimili í dag. Snæfell náði að klóra sig til baka 17-16 með innkomu Pálma og Stefáns og vörnin fór að virka betur. Staðan eftir fyrsta fjórðung 20-21 fyrir gestina í KR.

 

Liðin voru stál í stál og staðan 22-22 í upphafi annars hluta og aðeins farið að draga úr mönnum frá fyrstu sprettunum. Oft hefur verið talað um lítinn varnaleik í leikjum liðanna en núna voru ágætis tilþrif  á köflum og liðin skoruðu lítið sem var helst vegna slakrar hittni framan af og staðan 29-27 þegar leið á seinni hluta fjórðungsins. KR rauk í gang og tóku 11-0 kafla 29-38 með Pavel og Helga á eldi. Staðan var 35-47 í hálfleik.

 

Hjá Snæfelli var Vance Cooksey kominn með 9 stig og Sigurður Þorvaldsson 6 stig en hjá KR var Helgi Már kominn með 16 stig og Pavel var gríðarsterkur með 11 stig og 14 fráköst.

 

Snæfellsmenn hittu afleitlega og sóknir þeirra oft á sandi byggðar. Liðin höfðu skorað 2  og 3 stig eftir fjórar mínutur í þriðja hluta. KR menn skutu þá allt í kaf og með Darra og Brynjar skutust gestirnir í 19 stiga mun 38-57 og Snæfellingar höfðu ekki einu sinni fyrir því að fara í fráköst eða spila sæmilega vörn á kafla. Snæfell fór að reyna að laga leik sinn en KR hélt velli með góðri baráttu og voru yfir 52-69 fyrir fjórða fjórðung og Pavel búinn að hlaða í þrennuna 13 stig 21 frákast og 10 stoðsendingar.

 

Þegar Snæfell reyndi á KR og voru að minnka muninn tóku þeir svart/hvítu sig til og hífðu sig upp aftur í 17-19 stig og létu rigna þristum. Cooksey reyndi oft að sprengja sig upp en með litlum árangri. Snæfell komu eftir tekið leikhlé og voru allt annað lið sem komust úr 67-87 í 76-87 og þegar um 3 mínútur voru eftir með Kristján Pétur í hörkugír og Darri var kominn útaf með 5 villur. 10 stigum munaði á liðunum þegar 1 mínúta var eftir 80-90. Ekki gékk að brjóta og reyna fyrir sér með þeim hætti undir lokin og KR hafði sterkann sigur í Hólminum 84-99.

 

Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Aðalsteinn Hrafnkelsson.. Eitt eða tvö atriði til eða frá en fín tök á leiknum heilt yfir.

 

Snæfell: Kristján Pétur 20 stig. Vance Cooksey 18/6 frák/8 stoðs. Stefán Karel 9/9 frák. Pálmi Freyr 9. Sigurður Þorvaldsson 8/4 frák/4 stoðs. Jón Ólafur 6/8 frák. Finnur Atli 5. Hafþór Ingi 5. Sveinn Arnar 4. Snjólfur Björnsson 0. Þorbergur Helgi 0. Tinni Guðmunds 0.

 

KR: Helgi Már 25/6 frák. Darri Hilmarsson 22. Pavel Ermolinskij 20/22frák/13 stoðs.  Brynjar Þór 14/5 stoðs. Ingvaldur Magni 8. Jón Orri 7/5 frák. Þorgeir Blöndal 3. Vilhjálmur Kári 0. Kormákur Arthursson 0. Hugi Hólm 0. Ólafur Ægir 0. Högni Fjalarsson 0.

 

Þrátt fyrir að vera ekki stigahæstur þá var hann með þrennnuna klára og 44 í framlagstig í kvöld. Pavel hafði þetta að segja þegar Karfan.is spurði hvort þeir þyrftu yfir höfuð að styrkja sig með erlendum leikmanni og hvort hann hafi átt von á sterkari Snæfellingum.

 

” Það er auðvelt að segja það eftir svona leik en í raun þurfum við kannksi ekki kana en það getur verið gott að vera með einn góðann. Þó við tökum 2-3 góða leikmenn úr liðinu hérna þá erum við með góða breidd til að vinna hvern sem.  Það sem gerði gæfu muninn í dag var að við spiluðum eins og við vildum spila, spiluðum hraðann bolta og vörðumst vel og gátum keyrt hratt á þá. Þá komum við okkur í góð opin skot sem við settum niður og þetta hentaði okkur vel.

Mér fannst við eiga það góðann leik að þetta var frekar leikur sem við unnum frekar en þetta væri eitthvað slæmur dagur hjá Snæfelli þar sem við spiluðum eftir okkar styrkleikum og ef við gerum það þá vinnum við.”

 

Kristján Pétur var að setjann þegar á reyndi fyrir Snæfell og endaði stigahæstur með 20 stig og hann var stuttorður eftur leikinn.

 

”Þeir eru hörkuflott lið og ekkert tekið af þeirra leik þar sem þeir hittu úr nánast öllu. Við byrjuðum vel en fórum að fá á okkur kjánalegar villur og tapa boltum og leikurinn hrynur mikið hjá okkur”

 

Símon B Hjaltalín.