Stelpurnar gerðu góða ferð í vesturbæinn (umfjöllun af Karfan.is)

KR og Snæfell mættust í Dominos deild kvenna í gærkvöld.

 

KR og Snæfell mættust í Dominos deild kvenna í DHL höllinni í gærkvöld. Gengi liðanna, sem mættust í undanúrslitum Íslandsmótsins í fyrra, hefur verið ólíkt það sem af er vetri. Snæfellsstúlkur hafa litið vel út á haustdögum með 3 sigra í 4 leikjum á meðan KR liðið hefur farið hægt af stað með 1 sigur. Fyrir leik kvöldsins kom í ljós að KR-ingar sendu Kelli Thompson, bandarískan leikmann liðsins, heim en góðu fréttirnar voru þær að Helga Einarsdóttir var með á nýjan leik eftir meiðsli.

 

 

Byrjunarlið KR: Björg Guðrún Einarsdóttir, Bergþóra Tómasdóttir, Anna María Ævarsdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir.

Byrjunarlið Snæfells: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Chynna Brown, Hildur Björg Kristjánsdóttir og Hugrún Eva Valdimarsdóttir.

 

Gestirnir í Hólminum mættu virkilega einbeittar og ákveðnar til leiks í gær og tóku yfir leikinn strax í byrjun. Varnarleikur liðsins var prýðilegur og hraður, fljótandi sóknarleikur var eitthvað sem heimastúlkur réðu illa við. Hildur Sig og Hildur Björg léku við hvern sinn fingur og átti sú síðarnefnda lokaorðið í fyrsta leikhlutanum sem kom Snæfelli yfir 24-14.

 

Yfirburðirnir héldu áfram í öðrum leikhlutanum þar sem Eva Margrét Kristjánsdóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir áttu fínar innkomur. Hjá KR var Sigrún Sjöfn sú eina sem var að spila nálægt getu. Staðan í hálfleik 23-46.

 

Snæfellstúlkur gerðu svo endanlega útum leikinn í byrjun seinni hálfleiks með 13-2 sprett og leiddu að lokum þriðjaleikhluta 35-68. Fjórði leikhlutinn var svo bara formsatriði en gestirnir losuðu takið og unnu heimastúlku leikhlutann 22-12 en lokatölur urður 57-80 í afar sannfærandi Snæfells sigri.

 

Snæfellsliðið léku virkilega vel í gær en þó ber að hafa í hug að mótspyrnan var ansi lítil. Hreyfanlegur og góður liðsvarnarleikur var til fyrirmyndar og góður hraði og flæði í sóknarleiknum. Hildur og Hildur fór fyrir liðinu í stigaskorun og Guðrún Gróa reyndist sínum fyrrum félögum erfið með dugnaði sínum og krafti. Það bara merki um yfirburðina að annars ágætur erlendur leikmaður Snæfellsliðsins, Chynna Brown, þurfti að hafa sig lítið í frammi þar sem liðsheildin var sterk. Ungu stúlkurnar þær Eva Margrét og Rebekka sýndu svo að þær eru reiðubúnar í slaginn í vetur.

 

Hjá KR liðinu var fátt um fína drætti. Þrátt fyrir að vanta erlendan leikmann þá var frammistaðan einfaldlega arfaslök. Sigrún Sjöfn var í sérflokki og skilaði ágætis dagsverki en aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta. Það er ljóst að liðið getur ekki verið mikið lengur án erlends leikmanns en jafnframt þurfa aðrir leikmenn að stíga allhressilega upp ef ekki á illa að fara í vetur. Liðið situr nú á botninum ásamt Val en liðið mætir ósigruðum Keflavíkur stúlkum í næstu umferð.

 

Snæfellstúlkur, sem verma annað sæti deildarinnar, halda hins vegar í Hafnafjörðinn á miðvikudag sem er vafalítið leikur umferðarinnar en í lokaleik fyrstu umferðar af fjórum mætast svo toppliðin tvö Keflavík og Snæfell í Hólminum.

 

Umfjöllun tekin af www.karfan.is

Mynd Eyþór Ben

Tölfræði leiksins