Karlaliðið í vandræðum? Snúum þessu við…SAMAN…

Það var stemmningsleysi og of mikið af einstaklingsframtökum sem strákarnir sýndu á móti Haukum í gær. Liðið er aðeins með 1 sigur í 4 leikjum og verða heldur betur að hysja upp um sig buxurnar. Við höfum ekki trú á neinu öðru og munum standa þétt við bakið á okkar mönnum. Það besta sem strákarnir okkar geta fengið núna og fundið fyrir, er stuðningur ykkar. 

Gerum þetta saman!

Umfjöllunin sem kemur inn í fréttinni er tekin af karfan.is

Það var ágætlega mætt í Schenker-höllina í kvöld þar sem Haukar fengu Snæfellinga í heimsókn í öðru veldi. Kvenfólkið reið á vaðið kl. 18:00 þar sem gestirnir mörðu sigur að lokum. Það var því á herðum karlmannanna að jafna um gestina og eftir tvo flotta sigra Haukamanna í þremur leikjum mátti allt eins búast við því enda höfðu Hólmarar ekki byrjað mótið sannfærandi, aðeins með einn sigur, og það nauman, gegn Sköllum.

 

 

Haukamenn byrjuðu ansi rólega og gestirnir komust í 2-7. Sóknarleikur beggja liða var ekki til fyrirmyndar en heimamenn hresstust mjög er á leið og leiddu 21-17 eftir fyrsta fjórðung.

Annar leikhluti einkenndist af gríðarlegri baráttu sem skilaði samt sem áður engum stigum á töfluna! Vörnin hjá Haukum var loft- og vatnsþétt og Hólmarar litu út fyrir að hafa enga hugmynd um hver tilgangur sóknarleiks væri. Haukar skoruðu reyndar ekki neitt heldur fyrstu 3 mínúturnar eða svo en það var einfaldlega vegna þess að þeir hittu ekki úr annars fínum skotfærum sem þeir bjuggu sér til. Þegar liðin höfðu mjakað örfáum stigum á töfluna ákvað klukkan í húsinu að fara í verkfall í dulitla stund, sem er afar bagalegt og stöðvaði flæði leiksins. Við því máttu Hólmarar alls ekki enda flæðið í leik þeirra svo gott sem ekkert fyrir! Watson og Haukur sýndu lipra takta og héldu heimamönnum í nokkurra stiga forystu en einstaklingsframtak gestanna, einna helst Nonna Mæju, kom í veg fyrir að Haukarnir stingu af. Emil Barja endaði hálfleikinn með því að vaða fram allan völlinn á tæpum 3 sekúndum og setja buzzer-þrist, staðan 42-35 í hálfleik.

 

Þrátt fyrir býsna lélegan leik gestanna tókst þeim að halda í við heimamenn í þriðja leikhluta og má segja að leikurinn hafi verið í nokkuð góðu jafnvægi og liðið skiptust á körfum. Haukar þó alltaf með nokkurra stiga kodda og Emil og Watson áberandi í liði heimamanna. Kristján Pétur kom með ágæta mola fyrir gestina en annars var það einkum Nonni Mæju sem hélt gestunum inn í leiknum. Staðan eftir þriðja leikhluta 64-59 Haukum í vil.

 

Ekki skánaði leikur Snæfellinga í fjórða leikhluta. Vance Cooksey hafði ekki spilað vel í leiknum og var mest í því að tapa boltanum og hlaupa sig í vandræði. Hann tapaði þremur boltum (stattið er ekki sammála af einhverjum ástæðum) á skömmum tíma og Haukar virtust loksins ætla að klára dæmið og komu sér í 11 stiga forskot, 75-64 og fjórar mínútur eftir. En Haukamenn virðast ætla að leggja það í vana sinn að bjóða upp á svolitla spennu á sínum heimavelli, hægðu á leiknum og virtust ekki vilja skora neitt meira. Snæfellingar pressuðu og náðu að naga niður forskotið í 79-77 þegar 40 sekúndur lifðu leiks. Emil Barja tók svo rándýrt sóknarfrákast þegar um 20 sekúndur voru eftir og Snæfellingar urðu að brjóta. Pálmi fékk tækifæri á að jafna með þriggja stiga skoti í blálokin sem geigaði og Emil endaði leikinn með tveimur vítum, góður sigur heimamanna 82-77 í höfn.

 

Haukar halda áfram að gleðja áhangendur sína, og aðra, með flottri spilamennsku. Terrence Watson er algerlega frábær leikmaður, endaði með 31 stig, 13 fráköst og mjög góða nýtingu. Emil Barja virðist ætla að veita Ermolinskij smá samkeppni og lauk leik með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar! Haukur átti einnig fínan leik.

 

Nonni Mæju var helst með lífsmarki hjá gestunum með 25 stig og 9 fráköst en tók þó svolítið skrautleg skot á köflum. Vance Cooksey kom þar á eftir með 13 stig, 7 fráköst sem og stoðsendingar. Nýtingin hins vegar slök og framlag hans ekki ásættanlegt.

 

Tölfræði leiksins

 

Viðbrögð þjálfara liðanna eftir leik:

 

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka:

Ívar var að vonum afar sáttur við sína menn. Aðspurður hvort 3 sigrar í fjórum leikjum, eða 3 og hálfur sigur eins og hann skaut inn í, kæmi sér á óvart, viðurkenndi hann að þetta væri vissulega jafnvel betra en hann bjóst við, en hann hafði þó talið liðið eiga ágætan séns hér heima í þessum leik gegn Hólmurum. Hann hrósaði sérstaklega vörn liðsins, en hún hefur verið býsna góð nú í byrjun móts.

Það er því kannski mjög góður sigur úti gegn ÍR sem er hið óvænta í árangri liðsins til þessa.

 

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells:

Ingi viðurkenndi að aðeins einn sigur í þremur leikjum í byrjun móts væru mikil vonbrigði. Ingi vildi meina að Hólmarar hafi byrjað ágætlega í fyrsta leiknum gegn Þór Þ heima en Þór hafi reynst sterkari aðilinn í lokin og tekið þann leik. Leikurinn í Borgarnesi var kannski eini leikurinn þar sem liðið spilaði af einhverju viti en þeir svo aldrei átt neinn séns gegn öflugum KR-ingum. Ingi sagði að þeir höfðu verið að elta allan tímann í kvöld og aldrei náð neinu flæði í sínum leik – Haukar voru einfaldlega betri.

Ekki var annað hægt en að fá skoðanir Inga á frammistöðu Vance Cooksey, en hann var arfaslakur í kvöld. ,,Hann var bara lélegur, hitti illa, lélegur á línunni, tapaði boltum og seldi sig í vörninni.“ Ingi bætti við að haldi hann svona áfram verði hann ekki mikið lengur í Hólminum.

Hætt er við að Skagamenn hafi ekki pláss fyrir fleiri kana í sínu liði, en Cooksey fær væntanlega einhver tækifæri enn til að sanna sig.

 

Myndasafn – Axel Finnur

 

Umfjöllun: Kári Viðarsson