Snæfells stelpur með frábæran sigur

Það var rússíbani í Hafnarfirði í gær þegar stelpurnar mættu Haukum. Lokasekúndurnar voru æsispennandi og sigraði Snæfell að lokum eftir mikla dramatík og spennu.

Eftir karlaleikinn buðu Haukar til veislu og fengu leikmenn hamborgara og pizzur áður en lagt var í hann heim. Við þökkum Haukum fyrir frábært framtak og glæsilega umgjörð á báðum leikjunum. 

Umfjöllunin er tekin af karfan.is

Haukar tóku á móti Snæfelli í kvöld í 6. umferð Dominosdeildar kvenna í Schenkerhöllinni. Snæfell vann baráttusigur 66-67. Lele Hardy átti enn einn stórleikinn fyrir Hauka, 27 stig, 23 fráköst, 7 stoðsendingar og 6 stolnir boltar, en það var ekki nóg og svíður Haukakonum örugglega mörg sniðskotin sem geiguðu í kvöld. Chynna Unique Brown var atkvæðamest hjá Snæfelli og var hún einnig með mjög góðan leik þar sem að hún var með 19 stig, 14 fráköst, 7 stolna bolta og 6 stoðsendingar. Eva Margrét Kristjánsdóttir var ekki langt á eftir henni með 16 stig og 15 fráköst.

 

Byrjunarlið Hauka: Auður Íris Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Lele Hardy, Dagbjört Samúelsdóttir og Jóhanna Björk Sveinsdóttir.

 

Byrjunarlið Snæfells: Hildur Björg Kjartansdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Hildur Sigurðardóttir og Chynna Unique Brown.

 

Snæfell byrjaði leikinn betur og komust í 3-9 á fyrstu þremur mínútunum og sýndi þar Eva Margrét Kristjánsdóttir hvað koma skyldi frá henni í leiknum. Bjarni Magnússon tók þá leikhlé og las yfir sýnum konum. Það tók nokkrar mínútur þar til áhrifin komu inn en Haukar komu tilbaka og minnkuðu muninn niður í 3 stig í stöðunni 14-17, í 7-0 kafla þar sem Margrét Rósa Hálfdanardóttir smellti meðal annars niður einum þrist. Þá tók Chynna Unique Brown til sinna ráða þar sem hún stal boltanum í tvígang og skoraði einnig. Snæfell leiddi því 16-21 að loknum fyrsta leikhluta.

 

Haukar komu svo mjög vel stemmdar í annan leikhlutann og rúlluðu Snæfelli upp á 8-2 kafla á aðeins 90 sekúndum og komust yfir í fyrsta skiptið í stöðunni 24-23. Leikurinn var mjög jafn næstu mínúturnar. Eva Margrét fékk svo dæmda á sig sóknarvillu sem væri ekki frásögufærandi nema að hún var sú fyrsta af þremur í kvöld. Haukar komust í 35-30 en Hildur Sigurðardóttir svaraði með þrist, sínum fyrstu stigum í leiknum en það var ekkert búið að ganga hjá henni í sóknarleiknum fram að þessu, hún var búin að misnota 6 fyrstu skotin sín. Eva Margrét kom svo Snæfelli aftur yfir þegar hún tók LAAAANGAN þrist sem var ekkert nema net. Staðan í leikhléi var 36-38.

 

Stigahæst hjá Snæfelli var Eva Margrét Kristjánsdóttir með 12 stig, 5 fráköst, 2 stolna bolta og 2 varin skot. Hjá Haukum var Lele Hardy með 13 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 2 stolnir boltar.

 

Eva Margrét byrjaði svo seinni hálfleikinn alveg eins og hún endaði þann fyrri, eða með því að fá dæmda á sig sóknarvillu. Hún var því komin með þrjár slíkar eftir aðeins 13 sekúndur í þriðja leikhluta. Annars var þriðji leikhlutinn að mestu leyti í járnum. Hildur Sigurðardóttir fór hins vegar í gang um miðbik leikhlutans og ekki slæmt fyrir Snæfell að hafa átt hana inni, hún skoraði 8 stig á rétt tæpum 5 mínútum. Staðan 55-53.

 

Liðin skiptust á að skora í fjórða en svo um miðjan leikhlutann áttu Haukar 6-0 kafla og komust í 66-61. En þá áttu Haukar þrjár sóknir í röð þar sem þær voru með arfaslakar sendingar sem var ekki erfitt fyrir Snæfell að ræna og var þar Brown áberandi. Snæfell áttu þá sjálfar 6-0 kafla og kom Hildur Sigurðardóttir þeim yfir í 66-67 þegar rétt rúmar 80 sekúndur voru eftir. Snæfell  áttu svo möguleika á að tryggja sér sigurinn en stíf vörn Hauka kom í veg fyrir það þrátt fyrir að Eva Margrét hafi náð tveimur sóknarfráköstum í þeirri lotu. Mikill darraðadans var svo á síðustu 10 sekúndunum þar sem að Margrét Rósa stal boltanum og svo stal Hildur Sigurðar boltanum og að endingu stal Hardy boltanum. En vörn Snæfellinga hélt og þær vel að sigrinum komnar.

 

Tölfræði leiksins