Heimasigur í íburðarlitlum leik.

Leikurinn í kvöld fékk aldrei að lyftast á þær hæðir sem hann hefði getað. Lítið flæði og mikið um flaut. Sigur er sigur og við tökum honum fagnandi. Í fréttinni er umfjöllun frá Símoni endilega smelltu…

Valsmenn mættu í Hólminn og tókust á við Snæfell í Dominos deild karla. Fyrir leikinn voru Snæfellingar í 7. sæti búnir að taka á sig rögg í síðustu tveimur leikjum. Valmenn hins vegar á botninum með einn sigur og verða væntanlega grimmari með leik.

 

Valsmenn voru ferskir í upphafi og sóttu vel á heimamenn sem þó héldu í við gestina og staðan 8-8. Snæfell pressaði eftir skoraðar körfur, stálu boltum og  uppskáru ágætis stig fyrir en ekki voru þeir sannfærandi varnarlega á móti og Valsmenn gátu spilað sinn leik óþvingað og haldið jöfnu 20-20 en bæði lið voru að spila hratt. Valsmenn voru ekki eins beittir undir lok fyrsta hluta á meðan Snæfellsmenn spyrntu frá og staðan 38-28 fyrir heimamenn í miklum sóknarleik.

 

Mikið hægðist á sóknum liðanna í öðrum fjórðung og þau töluvert frá sprettunum sem voru  í upphafi. Liðin höfðu skorað 7 stig hvort eftir um 6 mínútna leik. Chris Woods var maður gestanna kominn með 20 stig þegar staðan var 54-40 fyrir Snæfell og þróaðist í að verða sá sem sóknirnar fór í gegnum þó aðrir hafi byrjað vel eins og Rúnar Ingi, Gunnlaugur og Birgir. Annar hluti fór 21-15 og staðan í hálfleik því 59-43.

 

Í Snæfellsliðinu var Vance Cooksey kominn með 18 stig og þeir frændur Sigurður Þorvaldsson og Nonni Mæju 13 stig hvor. Valsmegin var áðurnefndur Chris Woods 22 stig og Birgir Björn næstur með 7 stig en fleiri þurftu að stíga upp Valsmegin.

 

Ekki var mikið uppi á teningnum í byrjun seinni hálfleik hvað varðar mikla tilburði og liðin skiptust á að skora en leikurinn afskaplega þungur og íburðarlítill beggja megin. Valsmenn voru lítið eitt á undan í fjórðungnum ef eitthvað var og söxuðu aðeins á en þurftu að sinna varnarleiknum töluvert til að stoppa Snæfellsmenn og ná þeim að stigum þegar staðan var 71-61. Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 78-64 og Snæfellsmenn héldu sér á floti í leiknum en ekkert meira. Valsmenn gerðu það líka og náðu engan vegin að finna spil sem kom þeim í betri stöðu.

 

Valsmenn komu með stemmingu inn í fjórða hlutan og hófu leik á hörkuvörn og tóku strax 9 stig og staðan breyttist fljótt í 78-73. Snæfellsmenn voru ráðalausir í sóknum sínum en sýndu eftir leikhlé smá bit og komu sér af stað 87-73 með Sigurð Þorvaldsson sjóðheitann en hann setti niður 7 stig í röð. Eftir þetta áhlaup Snæfells var ljóst að Valur kæmi ekki mikið til baka. Snæfelll lauk sínum þriðja sigurleik í röð 107-91.

 

Snæfell: Vance Cooksey 38/6 frák/7 stoðs. Jón Ólafur 22/ 5 frák. Sigurður Þorvaldsson 20/7 frák. Pálmi Freyr 9/6 stoðs. Sveinn Arnar 5/7 frák. Finnur Atli 5/6 frák. Stefán Karel 5. Kristján Pétur 3. Hafþór Ingi 0. Snjólfur 0. Þorbergur Helgi 0. Jóhann Kristófer 0.

 

Valur: Chris Woods 40/9 frák. Rúnar Ingi 17/5 stoðs. Gunnlaugur Elsuson 15/5 frák. Birgir Pétursson 9/10 frák. Ragnar Gylfason 3. Oddur Ólafsson 3/5 stoðs. Oddur Birnir 2. Benedikt Skúlason 2. Atli Barðason 0. Benedikt Blöndal 0. Kristinn Ólafsson 0. Bjarni Gunnarsson 0.

 

Símon B. Hjaltalín.