Tap í kvöld

Okkar menn hafa átt betri dag, kíktu á umfjöllunina um leikinn…

Alltaf gaman er þegar Stjarnan mætir í Hólminn með ”hálfhólmarann” Justin Shouse um borð og skemmtilegir leikir hafa yfirleitt verið háðir. Þrátt fyrir djúpsjávarsprengingar í nærliggjandi hrepp, þ.e Kolgrafarfirði, þá voru allir léttir fyrir leikinn. Snæfell í 7.sæti með 8 stig og Stjarnan í 8. sæti með 6 stig og slatti  ndir í kvöld.   

 

Snæfell byrjaði 5-0 en Marvin lagaði til á töflunni 5-3 og Hairston jafnaði 5-5. Vance Cooksey hitti vel og tók 7 stig í röð fyrir Snæfell sem kom þeim í 12-7. Dagur Kár smellti þremur og Stjarnan jafnaði svo í framhaldinu 12-12 og eitthvað sagði manni að þetta gæti orðið svona heilt yfir leikinn hjá þessum liðum. Snæfell þyrfti þó að deila skorinu meira í leiknum því þegar staðan var 16-16 var Vance með 14 stig af þeim fyrir Snæfell. Marvin var heitur á hinum vængnum með 10 stig. Staðan eftir fyrsta hluta 19-26 og Stjörnumenn sprengdu sig aðeins frá Snæfelli undir lokin.

 

Stjarnan komust strax í 21-31 og voru ansi sprækir. Sveinn Arnar kom með kraft í vörn og sókn Snæfells, setti niður fimm stig og lagaði stöðuna 26-31. Leikurinn harðnaði og menn voru að þreifa fyrir sér og fengu Jón Ólafur og Fannar Freyr báðir villu fyrir hald og tog. En einnig voru menn heitir og létu smá tilfinningar í ljós ef dæmt var á þá og var Fannar Freyr nálægt tæknivillu en Kristján Pétur fékk eina slíka og Stjarnan náði aftur 10 stiga forystu 26-36. Hairston átti hörkuleik á kafla og setti 7 stig í röð fyrir Stjörnuna sem voru bara að bæta í og spiluðu hörkuvörn, voru gráðugir á boltann og náðu góðum fráköstum en þeir voru komnir í 34-49 með 9-0 kafla áður en Snæfell gat snúið sér almennilega við í leiknum. Staðan í hálfleik var 38-54 og voru Stjörnumenn bara þokkalegu skrefi betri en Snæfellingar á flestum sviðum og meira að segja í töpuðum boltum.

 

Hjá Snæfelli hélt Vance uppi heiðri félagsins með 20 stig kominn en næstur honum var Sveinn Arnar með 5 stig og vantaði menn að stíga upp og vera með. Hjá Stjörnumönnum hinsvegar voru, Marvin með 15 stig, Hairston 13 stig og 10 fráköst og Justin 11 stig að leiða liðið í góðum sóknum en allt liðið spilaði aldeilis ágæta vörn.

 

Snæfell þurftu heldur betur að girða sig og spila einhverjavörn, bara einhverja. Þeir náðu að skora en lítið að taka gamla góða saxxið á forystu Stjörnunnar. Glitta fór þó í leik þegar Snæfellsmenn komust nær 60-69 með Finn Atla og Pálma Frey ansi einbeitta og menn voru að koma með þeim. Þvílík innkoma Snæfells í þriðja hluta og gerðu öllum í húsinu greiða með að gera þetta að leik þegar Hafþór Ingi smellti þremur og Sigurður Þorvalds fór á línuna og kláraði tvö víti og staðan 67-69 fyrir Stjörnuna. Staðan eftir þriðja fjórðung var hins vegar 67-76 eftir að Dagur og Marvin höfðu rétt af erfiðleika gestanna.

 

Stjörnumenn komu einbeittir með sömu baráttu og fyrr í leiknum og komu sér strax í þægilegt forskot 69-85 með Dag Kár og Hairston alveg funheita og öll stemming heimamanna var sem hjóm eitt. Stjörnumenn tóku hreinlega á öllu sem þeir áttu inni og uppskáru 71-92 forystu og ótrúlegur viðsnúningur frá fimmtán stiga leik í tveggja stiga leik í tuttugu stiga leik í seinni hálfleiknum. Snæfellingar voru ekki með nokkurn séns til að breyta um í leikum þegar um tvær mínútur voru eftir og gestirnir komnir í 81-103 verið einungis verið að rúlla leiknum af skyldunni einni. Stjarnan jafnaði því Snæfell að stigum og færa sig ofar í deildinni eftir upprúll og sterkann útisigur í Hólminum 85-107.

 

Snæfell: Vance Cooksey 30/5frák/4 stoðs. Pálmi Freyr 15/4 frák. Sigurður Þorvaldsson 12/6 frák/4 stoðs. Sveinn Arnar 11/5 stoðs. Hafþór Ingi 6. Finnur Atli 5/5 frák. Stefán Karel 4/7 frák. Jón Ólafur 2/5 frák. Kristján Pétur 0. Þorbergur Helgi 0. Snjólfur Björnsson 0. Jóhann Kristófer 0.

 

Stjarnan: Matthew James Hairston 31/16 frák. Marvin Valdimarsson 29/7 frák. Justin Shouse 17/6 frák/8 stoð. Dagur Kár 13/4 stoðs. Fannar Freyr 8/5 frák. Tómas Þórður 4. Kjartan Atli 3. Sigurður Dagur 2. Magnús Bjarki 0.

 

Símon B. Hjaltalín.