Magnaður sigur á Haukum

Stelpurnar komust upp að hlið Keflavíkur í kvöld.

Snæfellsstúlkur jöfnuðu Keflavíkurstúlkur að stigum (þar sem Keflavík tapaði fyrir KR í kvöld) með góðum heimasigri á Haukastúlkum sem fyrir leikinn höfðu sigrað í sex leikjum í röð og komið sér í góða stöðu í þriðja sæti deildarinnar.  Chynna Brown var gríðarlega góð í leiknum með tvennu 35 stig og 10 fráköst og liðsheild Snæfellssliðsins var lykilinn að sigrinum 88-75.  40 stig og 20 fráköst frá LeLe Hardy dugðu ekki fyrir Hauka en liðin höfðu mæst einu sinni áður í deildinni þar sem Snæfellsstúlkur sigruðu í háspennuleik 66-67 að Ásvöllum. 

 Það var jafnræði í stigaskorinu í upphafi en Haukar voru í eitt skitpi yfir í leiknum 4-6.  Gunnhildur Gunnars minnkaði muninn í 12-11 áður en heimastúlkur skoruðu 8-0 og leiddu 19-11 eftir fyrsta leikhluta.  Haukar byrjuðu annan leikhluta sterkt og minnkuðu muninn í 19-16 áður en Helga Hjördís strauk af loftinu og smellti niður þrist.  Chynna Brown var Haukastúlkum erfið í fyrri hálfleik og Snæfell leiddu 40-31.  Hjá Snæfell var Chynna stigahæst með 15 stig og Hildur Björg kom næst með 7.  Hjá Haukum var LeLe Hardy með 17 stig en næst kom Margrét Rósa með 6.

 Í þriðja leikhluta var einsog körfurnar hefðu verið breikkaðar því það byrjaði að rigna þristum hjá báðum liðum, Íris og Lele settu tvo strax en Chynna svaraði að bragði, Haukar minnkuðu muninn niður í 59-56 þar sem LeLe setti þriðja þristinn í leikhlutanum.  Hildur Sig og Chynna svöruðu fyrir Snæfell og þær héldu níu stiga forskoti eftir þrjá leikhluta 65-56.  Í fjórða leiklhluta Náði LeLe og Íris muninn fyrir Hauka og staðan 69-65.  Hildur Sig svaraði með tveimur þristum og Snæfell héldu forskoti sínu en Haukar gerðu harða athlögu að heimastúlkum.  Á lokakafla leiksins var vörn Snæfell þétt og áttu Haukastúlkur í vandræðum.  Lokatölur 88-75 og Snæfell lönduðu tíunda sigrinum á tímabilinu.

 Stigaskor Snæfells: Chynna Brown 35 stig/10 fráköst/4 stoðsendingar/ 4 stolnir, Hildur Sigurðardóttir 17 stig/ 8 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 13 stig/ 11 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 13 sig/4 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 6 stig/ 4 fráköst/ 5 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 3 stig/ 2 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 1 stig/ 2 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0 stig/ 2 fráköst, Edda Bára Árnadóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0.

 Stigaskor Hauka: LeLe Hardy 40 stig/20 fráköst/ 7 stoðsendingar/4 stolnir, Margrét Rósa Hálfdánardóttir 8 stig/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 7 stig/ 4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 7 stig, Íris Sverrisdóttir 6 stig/2 fráköst/ 3 stoðsendingar, Dagbjört Samúelsdóttir 4 stig, Lovísa Björt Henningsdóttir 3 stig/2 fráköst/ 2 stoðsendingar, Sylvía Rún Hálfdánardóttir 0, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 0, Guðrún Ósk Ámundadóttir 0.

 

Ingi Þór sagði í snörpu viðtali við Karfan.is:

“Ég er mjög sáttur við kraftinn í liðinu hérna í dag, stelpurnar lögðu sig fram fyrir hverja aðra og þannig erum við bestar.  Chynna var flott á báðum endum vallarins og við fengum framlag úr öllum áttum.  Haukarnir voru á sex leikja runni fyrir  leikinn í kvöld og ég er mjög ánægður með að halda þeim fyrir neðan okkur yfir hátíðarnar.  Framundan er hörkuleikur gegn toppliðinu sem okkur hlakkar til að takast á við.”

AP