Snæfell með mikilvæg stig gegn ÍR

Snæfell með mikilvæg stig gegn ÍR

Það var mikilvægur leikur fyrir bæði Snæfell og ÍR sem mættust í Hólminum en bæði lið eru að berjast við að ná inn í úrslitakeppnina. Snæfell í 8. sæti fyrir leikinn með 14 stig og ÍR í 9. sæti með 12 stig.

Liðin voru tiltölulega jafnfætis á fyrstu mínútum leiksins. Þegar staðan var 4-4 lagaði Sigurður Þorvaldsson stöðu heimamanna með fimm stigum 9-4. ÍR komu til baka og komust yfir 13-14 en Björgvin Ríkharðsson setti niður tvo þrista og benti Hólmurum á að skrá mætingu hans í kladdann. ÍR virtust ætla að mæta með góða vörn í upphafi leiks og gerðu Snæfellingum oft erfitt fyrir sem voru tæpir oft á sóknarklukkunni. Undir lok fyrsta hluta hafði Snæfell komið sér í fimm stiga forystu 20-15 og virtist opið í leiknum.

Heimamenn smelltu upp sparibrosinu og komust strax í 29-17 og svo 36-21 en á köflum var klaufaskapur í leiknum og líkamlegar þreifingar töluverðar eins og vera vill. Snæfell settu upp svæðisvörn sem gekk mjög vel og unnu góða bolta, tóku fráköstin og kláruðu sínar sóknir í kjölfarið. ÍR punkteraði algjörlega og virtust ekki alveg tilbúnir í atið en skot þeirra og oft góð vildu ekki ofan í og varnarleikurinn varð heldur losaralegur. ÍR hafði í fyrri hálfleik skorað 8 af 20 (40%) í tveggjastiga skotum gegn 15 af 21 (71%) frá Snæfelli. Staðan var 50-28 í hálfleik og allt var að smella hjá Hólmurum.

 

Hjá Snæfelli var Travis Cohn III kominn með 15 stig og Sigurður Þorvaldsson 14. Sveinn Arnar var grimmur í fráköstum með 7 stykki. Í liði ÍR var Björgvin Ríkharðsson með 8 stig og Sveinbjörn Claessen 7 stig. Snæfell hafði yfirburði í fráköstum 28 gegn 13 og unnu annan hluta 27-13.

Eftir punkteringu ÍR fóru þeir að pumpa lofti í dekkin og koma sér af stað því allt annað lið mætti inn á völlinn í þriðja hluta. Þeir unnu hann 20-34 og voru að berjast vel. Snæfellingar slökuðu á og virtist púðrið á byssum þeirra búið. ÍR vann sig hægt í 8 stiga mun 70-62, sem var lokastaðan eftir þriðja hluta, voru áræðnir, kraftmiklir og hittu mjög vel. Gestirnir fengu mikið rými til athafna og nýttu það vel og þá sérstkalega Sveinbjörn, Hjalti, Nigel og Matthías sem mættu varla í fyrri hálfleik.

Snæfellingar fóru að vakna og náðu að klóra sig í 10 stiga forskot 79-69 eftir að ÍR nálgaðist 72-65. Sigurður og Travis voru að klára vel fyrir Snæfell og varnarleikurinn að þéttast. Lokamínútur leiksins voru heitar enda mikið í húfi og spennustigið hátt. Snæfellingar komust langt á fyrri hálfleik sem ÍR gátu ekki brúað í leiknum og þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan 81-76 og fimm stiga munur. Heimamenn sigldu einbeittir í átt til sigurs og komsut í 11 stiga forskot þegar mínúta var eftir 89-78. Lokatölur urðu 94-79 og Snæfellingar komust í 7. sætið með sigrinum og styrkja stöðu sína um sæti í úrslitakeppninni.

Pálmi Freyr, fyrirliði Snæfells, taldi liðið hafa spilað einkar vel í fyrri hálfleik og að svæðisvörnin 3:2 hafi gengið vel upp. “Þetta kom mikið með vörninni en í seinni hálfleik slökuðum við heldur mikið á sem þeir nýttu sér vel. Sóknirnar stöðnuðu hjá okkur á meðan þeir fengu gott rými en fyrri hálfleikur hjá okkur var vel spilaður. Nú er hver leikur mikilvægur og mikil barátta framundan hjá okkur. Það var gott fyrir okkur að opna augun eftir að hafa komist 20 stigum yfir og misst það niður að ná að halda haus og tryggja þetta í lokin.”

Örvar Kristjánsson var að vonum svekktur með leikinn og taldi sitt lið hreinlega ekki hafa verið mætt í leikinn í fyrri hálfleik. “Við vorum heppnir að vera bara 22 stigum undir í hálfleik eftir að Snæfell yfirspiluðu okkur. Vörnin var léleg og hittnin engin en við komum og spiluðum vel í þriðja og í upphafi fjórða hluta og náðum að minnka vel niður. Þá hittum við ekki úr mikilvægum góðum skotum á meðan Snæfell setur stór skot niður og komast 10 stigum yfir. Við vorum á hælunum í byrjun og það varð okkur að falli. Við lifum bara í trúnni það eru fimm leikir eftir og við getum unnið alla og tapað fyrir öllum. Þetta verður erfitt, við sýndum bæði í kvöld hvað við getum verið góðir og hvað við getum verið lélegir en Snæfell átti þennan sigur skilinn og lið númer eitt eða tvö vilja ekkert endilega mæta þeim.”

Snæfell: Travis Cohn III 28/8frák. Sigurður Þorvaldsson 26/8 frák. Jón Ólafur 14/7 frák. Pálmi Freyr 9/5 frák/4 stoðs. Kristján Pétur 7/5 frák. Stefán Karel 4/4 frák. Sveinn Arnar 4/7 frák. Finnur Atli 2/4 frák. Viktor Marinó 0. Snjólfur 0. Þorbergur Helgi 0.

ÍR: Sveinbjörn Claessen 20/3 frák/5 stoðs. Hjalti Friðriksson 16/8 frák. Matthías Orri 15/5 frák/5 stoðs. Nigel Moore 14/10 frák. Björgvin Hafþór 14. Birgir Þór 0. Daníel Freyr 0. Sæþór Elmar 0. Ragnar Örn 0. Kristófer Fannar 0. Vilhjálmur Theodór 0. Arnar Ingi 0.

Tölfræði leiksins

Símon B. Hjaltalín.