Þakkarbréf til stuðningsmanna og styrktaraðila Snæfells

Þakkarbréf til stuðningsmanna og styrktaraðila Snæfells

Ágætu stuðningsmenn og styrktaraðilar Snæfells


Ég undirritaður, formaður kkd Snæfells, þakka ykkur mikinn stuðning og um leið ótrúlega stemningu á úrslitaleik í bikarkeppni KKÍ sl. laugardag, hvort sem þið náðuð að vera með okkur í Höllinni eða sátuð í stofunni heima.

Því miður náðum við ekki að spila okkar besta leik og því stóðu sterkar Haukastúlkur uppi sem sigurvegar og óskum við þeim innilega til hamingju með bikarmeistaratitilinn.

Það eru bara forréttindi að komast í Höllina og fá tækifæri að taka þátt í slíkum viðburði. Allt íþróttafólk á Íslandi dreymir um slíkt en eins og við vitum að þá ná því ekki allir.

Snæfellsstelpur, við erum endalaust stolt af ykkar frammistöðu og þið hafið komið körfuboltanum á enn hærra plan hér í Hólminum.
Umgjörð leiksins, ungu stúlkurnar frá Snæfelli, sem hlupu með liðinu inn á völlinn, og þið, áhorfendur góðir, allt var þetta eins og best verður á kosið og íslenskum körfubolta til sóma.

Lífið heldur áfram og við tökum glöð á móti næstu verkefnum. Næsta miðvikudag leika stelpurnar okkar á móti Njarðvík í deildarkeppninni. Formaður KKÍ og fylgdarlið munu afhenda Snæfellsstelpunum deildarbikarinn, en þær eru þegar búnar að vinna þann titil og eiga samt 4 leiki eftir í deildinni – já enginn smá árangur !

Stuðningsfólk og styrktaraðilar Snæfells, um leið og við þökkum ykkur mikinn stuðning hingað til vonum við einnig að þið verðið með okkur til loka, þannig klárum við körfuboltavertíðina með sóma.Við ætlum okkur áfram sem hingað til að vera í hópi þeirra bestu.

Með baráttukveðjum og ÁFRAM SNÆFELL
Gunnar Svanlaugsson, formaður