Við þurfum betri leik til að vinna besta lið landsins! Trúum!

Við þurfum betri leik til að vinna besta lið landsins! Trúum!

Staðan er 1-0 fyrir KR eins og allir bjuggust við, nú förum við heim og verjum heimavöllinn!!!
Það er nóg eftir!

Hérna er umfjöllun frá www.karfan.is

Deildarmeistarar KR-inga tóku á móti piltunum frá hinum heillandi Hólmi í fyrsta leik úrslitakeppninnar í kvöld. Hólmarar hafa kannski ekki alveg staðið undir væntingum í vetur og þurftu að sætta sig við áttunda sæti deildarinnar og þar með rimmu við margverðlaunaða deildarmeistarana.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og enginn betur en Darri sem sýndi dug sinn fyrir utan þriggja stiga linuna ítrekað. Einnig var Martin beinskeyttur að vanda og þaut nokkrar ferðir í gegnum frekar leka vörn Snæfellinga eins og vampíra á hraðferð. Gestunum til happs sýndi Travis fína takta á köflum og KR-ingar aðeins 26-18 yfir eftir fyrsta fjórðung.

KR-ingar héldu áfram að spila vel í öðrum leikhluta og bjuggu ítrekað til galopin skot og auðveldar körfur. Sóknarleikur Hólmara var aftur á móti ekki beint heillandi og helst að einstaklingsframtak frá Travis eða Sigga skilaði stigum. Skotval gestanna var á köflum slælegt en þétt KR-vörnin hafði vafalaust eitthvað með það að gera að hluta til. Siggi átti ágætan fjórðung fyrir gestina en þó hálfgert kraftaverk að heimamenn leiddu aðeins með níu stigum, 48-39, í hálfleik.

KR-ingar virtust svo hafa allt í höndum sér í þriðja leikhluta og með frábærri spilamennsku jókst munurinn hratt – staðan 69-50 og holan alræmda ansi djúp. En körfubolti er leikur áhlaupa, Travis setti nokkur góð stig og með smá hjálp frá Helga í formi tæknivillu og vítaskota var staðan skyndilega 69-61! Að loknum leikhlutanum var staðan 73-63 og gestirnir eygðu enn von.

Von gestanna lifði hins vegar skammt og varð sannarlega bráðkvödd snemma í fjórða. Heimamenn settu fyrstu 12 stig leikhlutans en gestirnir skoruðu ekki fyrr en um hann miðjan! Martin og Darri fóru fremstir í flokki ásamt Pavel sem bjó mikið til á listfenginn hátt. Demond bauð upp á glæsilega ,,alley-oop“-troðslu undir lokin er úrslitin voru ráðin svona til að gleðja áhorfendur. Öruggur 98-76 sigur heimamanna staðreynd.

Snæfellingar virkuðu frekar andlausir í leiknum og virtust gefast kannski full snemma upp? Hólmarar litu a.m.k. ekki út fyrir að hafa mikla trú á hlutunum í kvöld. Travis var fremstur Hólmara með 21 stig og 8 fráköst og Siggi setti 19 stig.

KR-ingar spiluðu flottan liðsbolta í kvöld og margir bjuggu til þennan sigur. Til marks um það má benda á að KR-liðið gaf 31 stoðsendingu í leiknum en gestirnir jafnmargar og Pavel einn eða 13 stykki. Darri var frábær, skoraði 16 stig í örfáum skotum og Helgi gerði annað eins. Martin var stigahæstur og endaði með 23 stig.

Tölfræði leiksins
Myndasafn
Viðtal við Sigga Þorvalds
Viðtal við Darra Hilmars
Umfjöllun: Kári Viðarsson