Oddaleikur staðreynd!

Oddaleikur staðreynd!

Valur tryggði sér oddaleik um sæti í úrslitum í Dominos Deild kvenna í kvöld með öruggum 26 stiga sigri á Snæfell, 82-56. Valur spilaði af meiri krafti strax frá fyrsta leikhluta og héldu því forskoti sem þar náðist frá upphafi til enda. Hraður leikur Vals reyndist Snæfelli of mikið eftir stífa dagskrá síðustu daga. Stigahæst í liði Vals í kvöld var Kristrún Sigurjónsdóttir með 16 stig en næstar voru Ann Martin með 14 stig, og Unnur Lára Ásgeirsdóttir með 9 stig. Fjórir aðrir leikmenn Vals komu svo þar á eftir með 8 stig hver. Í liði Snæfells var Hildur Sigurðardóttir stigahæst með 12 stig en næstar voru Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 11 stig og Hildur Björg Kjartansdóttir með 9 stig og 6 fráköst sem komu öll í fyrri hálfleik.

Leikurinn byrjaði nokkuð hratt, bæði lið keyrðu upp völlinn og Valsstúlkur mættu gestunum nokkuð hátt á vellinum. Hraðinn skilaði sér þó ekki á stigatöflunni því mörg skot fóru forgörðum og eftir tvær mínútur voru liðin búin að skora 4 stig hvort. Liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín næstu mínúturnar. Bæði lið voru að verjast vel þegar leikurinn róaðist niður og fengu því fá opin skot. Þegar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta hafði Valur 3 stiga forskot, 12-9. Valsstúlkum tókst svo að bæta við það forskot áður en fyrsta leikhluta lauk en þá stóðu tölur 17-12.

Valsstúlkur bættu svo í í upphafi annars leikhluta og höfðu náð forskotinu upp í 8 stig þegar fjórar mínútur voru liðnar, 27-19. Ingi Þór, þjálfari Snæfells, tók þá leikhlé. Kristrún Sigurjónsdóttir hafði þá sett tvo þrista með stuttu millibili og þrír af þremur fyrir utan línuna. Þegar annar leikhluti var hálfnaður fengu Snæfell 5 skot í sömu sókninni sem var nokkuð lýsandi fyrir þeirra skot fyrr í leiknum. Valur hafði þá náð forskotinu upp í 12 stig, 35-23. Snæfell tók svo aftur leikhlé stuttu seinna í stöðunni 37-25. Leikhléið gerði lítið því Valur skoraði næstu 4 stig leiksins og forskot Vals því orðið 16 stig, 41-25. Hvorugu liðinu tókst að skora á lokamínútu fyrri hálfleiks og þannig stóðu því tölur í hálfleik, 41-25.

Stigahæst í liði Vals í hálfleik var Kristrún Sigurjónsdóttir með 12 stig en næstar voru Guðbjörg Sverrisdóttir með 7 stig og 7 fráköst og Unnur Lára Ásgeirsdóttir með 5 stig. Hjá Snæfell var Hildur Björg Kjartansdóttir stigahæst með 9 stig og 6 fráköst. Næstar voru Chynna Brown með 5 stig og Hildur Sigurðardóttir með 4 stig.

Þrátt fyrir fínan varnarleik á köflum hjá Snæfell í upphafi seinni hálfleiks þurfti ekki meira en að gleyma Ann Martin tvisvar sinnum fyrir utan línuna á fyrstu tveimur mínútum leikhlutans og forskot Vals var komið upp í 22 stig, 49-27. Sem fyrr gekk alltof erfiðlega hjá gestunum að koma boltanum ofaní og virtist hraður leikur Vals henta þeim mjög illa. Guðbjörg Sverris fór útaf stuttu seinna vegna meiðsla og fékk aðhlynningu. Undir lok leikhlutans voru báðir þjálfarar farnir að leyfa nokkrum lykilmönnum að hvíla sig og skilaboðin því nokkuð skýr, Snæfell var ekki að fara að vinna upp þessi 22 stig sem skildu að liðin. Þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta stóðu tölur, 59-37. Þórunn Bjarnadóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir skiptust þremur þristum á milli sín á síðustu mínútum þriðja leikhluta. Þórunn setti þann þriðja og sinn annan í röð rétt áður en leikhlutanum lauk og stóðu því tölur fyrir seinasta leikhlutan 65-42.

María Björnsdóttir fékk sína fimmtu villu strax í upphafi fjórða leikhluta og lauk þar með sinni þáttöku í leiknum með 8 stig og 5 fráköst. Ingi Þór tók aftur leikhlé fyrir Snæfell strax eftir eina mínútu af fjórða leikhluta en þá voru einu stig leikhlutans þrjú stig Guðrúnar Gróu, 64-45. Valsstúlkur voru þó hvergi á því að gefa eftir og bættu bara í forskotið hægt og rólega. Leikurinn spilaðist svo hægt og rólega út þar sem úrslitin voru löngu ráðin og bæði lið hvíldu lykilleikmenn síðustu mínúturnar. Valur hafði á endanum 26 stiga sigur, 82-56.

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Torfi Magnússon
umfjöllun : [email protected]