Ætlum við að hneigja okkur og þakka fyrir? NEI!!

Ætlum við að hneigja okkur og þakka fyrir? NEI!!

KR í lykilstöðu fyrir þriðja leikinn
Annar leikur í einvígi KR og Snæfells í 8 liða úrslitum karla var háður í Stykkishólmi og fyrir leikinn var 1-0 fyrir KR og á brattann að sækja fyrir Snæfell samkvæmt kaffistofu og spekingaspjalli.

KR settu stóru skotin í upphafi og með þristum frá Martin, Helga og Pavel voru KR menn komnir í 4-9 og enduðu í 4-15 áður en Snæfellsmenn tóku lekhlé og gestirnir sprækir mjög. Liðsheild KR var að vinna vel og varnarvinnan var sterk og Snæfell fundu fáar glufur að grafa í. Vörn Snæfells var hriplek en þeir náðu að jafna sig eilítið undir lok fyrsta hluta en staðan 15-26 fyrir KR.

Snæfellingar náðu að hanga á vagninum og fylgja KR í kringum 10 stigum á eftir þeim en bættu svo í varnarleikinn. Sigurður Þorvaldsson smellti niður þrist og Sveinn Arnar tvö víti í kjölfarið og Snæfell saxaði á forskotið 27-33. Gestirnir létu það ekki á sig fá að missa þetta aðeins niður og tóku þetta allt til baka 29-43. Snæfellingar fóru of oft illa að ráði sínu í sendingum og sóknarleik og KR refsaði grimmt með að keyra á þá. Staðan í hálfleik var 13 stig, 36-49 fyrir KR, og ekki neinn bilbug á mönnum að finna en jafnræði var með liðunum í öðrum hluta.

Travis Cohn hafði sett niður 15 stig fyrir Snæfell og Sigurður Þorvaldsson 7 stig. Hjá KR var Helgi Már kominn með 11 stig en þeir frændur Demond Watt og Martin Hermannsson 10 stig hvor.

KR höfðu þetta mikið í hendi sér og Snæfell áttu erfitt með að sækja á þá eins stíft og þeir vildu og Vesturbæingar höfðu forystu 43-60. Mikið þurfti að gerast í leik Snæfells og riðlast í leik KR til að heimamenn eygðu sér vonir og væntingar í leiknum þegar gestirnir voru að stíga í 20 stiga munin í leiknum með glæsitroðslu frá Pavel Ermolinskij 49-69. Snæfellsmenn hittu ekkert og varla í hringinn og vörnin hafði ekki alltaf erindi í flæði KR sóknanna. Staðan eftir þriðja hluta 54-75.

Snæfellingurinn Stefán Karel var fór útaf með fimm villur í byrjun fjórða fjórðungs. Snæfellingar sóttu ekkert sérstaklega meira á en KR bærðust heldur ekkert mikið frá um þessi 20 stig og þar um kring sem leikurinn var í og staðan 59-79. Nema þá kannski 65-81 þegar Snæfell sóttu spönn en leikurinn var alls ekkert að verða meira spennandi og fallegri. KR menn komust strax í 65-85 og tilþrifin þverrandi um miðjan fjórða fjórðung. Sigurður Þorvaldsson hélt smá glæðu í töpuðum leik Snæfells með tveimur þristum og Snæfell sótti undir lokin úr 70-92 í 80-94 en mínúta var eftir af leiknum og ekki miklu bjargað. KR fengu auðveldan sigur í Hólminum 85-99 og menn hljóta að spyrja sig hvort þetta hafi verið síðasti heimaleikur Snæfells þetta tímabilið? Deildarmeistararnir hins vegar með þokkalega stöðu 2-0 og geta klárað einvígið 3-0 á fimmtdaginn n.k. í DHL Höllinni.

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Sumarliði Ásgeirsson

Umfjöllun/ Símon B Hjaltalín