Strákarnir úr leik

Strákarnir úr leik

Við ætlum að gera upp tímabilið á næstu dögum og taka viðtal við einn allra besta leikmann sem komið hefur upp úr yngriflokkastarf Snæfells. Nonni Mæju spilaði kveðjuleik sinn á móti KR á fimmtudaginn, það verður gríðarleg eftirsjá af Nonna – meira síðar.

Hérna er umfjöllun um þriðja leik Snæfells og KR – af www.karfan.is

KR gerði sér lítið fyrir og sópaði Snæfell út úr úrslitakeppninni í kvöld með 101-84 sigri í DHL-höllinni. Pavel Ermolinskij fór fyrir heimamönnum og setti met með flestar stoðsendingar í leik á þessari leiktíð, 18 stykki, ásamt því að skora 15 stig og hirða 9 fráköst. Demond Watt átti einnig príðisleik fyrir KR og splæsti í hverja troðsluna á fætur annari í fyrri hálfleik en hann endaði með 27 stig og 12 fráköst. KR er því fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í fjögurra liða úrslitum þetta árið

Það fór ekkert á milli mála hvort liðið hafði forskot í einvíginu á fyrstu mínútum leiksins. KR keyrði upp hraðan og fengu mörg auðveld sniðskot ásamt því að nýta önnur færi snilldar vel. Á hinum endanum gekk lítið sem ekkert og tók Ingi leikhlé fyrir Snæfell strax eftir 2 og hálfa mínútu en forskot KR var þá komið upp í 8 stig, 10-2. Snæfell mætti eftir þetta leikhlé og skoraði næstu 6 stig leiksins áður en KR tók aftur yfir og skoraði næstu 8 stig. Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta höfðu KR ennþá 8 stiga forskot, 18-10. Pavel og Demond Watt virtust reyna að keyra pick’n’roll í hverri einustu sókn og skilaði það sér nokkrum sinnum vel í vasan fyrir KR. KR átti síðasta skotið í fyrsta leikhluta en Finnur Atli Magnússon varði sniðskotstilraun Martin Hermanssonar og endaði því með 10 stiga forskot 28-18.

Snæfell byrjaði annan leikhluta nokkuð vel og höfðu minnkað forskot KR niður í 5 stig eftir eina og hálfa mínútu, 28-23. Jón Orri Kristjánsson hafði þá klikkað úr fjórum vítum í röð og skotin ekki að detta með heimamönnum. Finnur Magnússon setti svo þrist stuttu seinna og allt í einu var aðeins tveggja stiga munur á liðunum, 28-26. Finnur var svo aftur að verki stuttu seinna og setti annan þrist sem kom Snæfell yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 30-31. Finnur hafði þá setti 8 stig á fjórum mínútum fyrir Snæfell. Gestirnir voru farnir að hitna all verulega fyrir utan þriggja stiga línuna og höfðu þannig svör við flestu frá KR. Liðin skiptust á að leiða leikinn næstu mínútur þar til KR náði aftur 6 stiga forskoti þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 48-42. Það forskot náði Snæfell ekki að minnka aftur í fyrri hálfleik en þegar flautað til loka annars leikhluta var forskot KR 7 stig, 53-46.

Stigahæsti maður í liði KR í hálfleik var Demond Watt með 19 stig og 8 fráköst en næstu menn voru Martin Hermannsson með 12 stig og Pavel Ermolinskij með 8 stig og 9 stoðsendingar. Í liði Snæfells var Finnur Magnússon stigahæstur með 12 stig, Travis Cohn með 11 stig og Jon Ólafur Jónsson með 8 stig.

Liðin mættu bæði af krafti úr hálfleik og spiluðust fyrstu mínútur seinni hálfleiks mjög hraðar, liðin höfðu samanlagt skorað 19 stig á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans þegar Finnur Freyr tók leikhlé fyrir KR, 61-57. KR setti svo strax fimm stig í andlitið á Snæfell á fyrstu 30 sekúndunum eftir leikhlé, 67-57. Það virtist ekki skipta máli hvernig Snæfell spilaði sinn leik, þeim tókst aldrei að komast nær KR en svo að þeir gátu tekið eina-tvær sóknir til þess að koma forskotinu aftur upp í 10 stig. Þegar tævr og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta tók Ingi Þór leikhlé fyrir Snæfell í stöðunni 74-61. Snæfell tókst að minnka það forskot aftur niður i 5 stig með þrist frá Sigurði Þorvalds þegar 50 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta en fimm stig frá KR það sem eftir lifði leikhlutans sá til þess að þess að forskot þeirra var ennþá 10 stig þegar einn leikhluti var eftir, 79-69.

KR lagði grunninn að sigrinum strax þegar fjórði leikhluti var að verða hálfnaður með flottum þrist frá Brynjari Björnssyni sem kom KR í 14 stiga forskot, 90-76. Svör Snæfells voru einfaldlega ekki nógu mörg og nógu góð til þess að geta gert tilkall til sigurs í kvöld. Martin kom KR í 16 stiga forskot stuttu seinna og var það stærsta forskot KR fram til þessa, 92-76. Snæfell tók að pressa heimamenn allan völlinn undir lok leiksins en KR leysti það mjög vel og létu boltan fimlega ganga milli manna. Þegar ein mínúta var eftir fengu svo nokkrir lykilmenn að hvíla sig og úrslitin því alveg ljós.

[email protected]