Rosalegur sigur í Hafnarfirði! 2-0!

Rosalegur sigur í Hafnarfirði! 2-0!

Stelpurnar eru komnar í 2-0 eftir svakalegan sigur í gær. Stelpurnar stóðu sig frábærlega í leiknum og eiga svo sannarlega hrós skilið. Við viljum líka þakka þeim fjölmörgu stuðningsmönnum sem mættu á leikinn í gær, stemmningin var hreinn unaður.
Við skorum á alla að mæta á leik númer þrjú sem er á sunnudaginn kl. 19:15.
Hér fyrir neðan eru umfjallanir og viðtöl frá hinum ýmsu miðlum.

Umfjöllun á visir.is
Snæfell getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sunnudaginn en liðið leiðir, 2-0, gegn Haukum í úrslitarimmu liðanna eftir 75-72 sigur í æsispennandi leik á Ásvöllum í kvöld.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og mikið stigaskor var í upphafi leiks. Áhorfendur voru vel með á nótunum og mikil og góð stemning var í húsinu. Snæfell var ávallt skrefi á undan í fyrsta leikhluta, en virist þó vera gefa aðeins í undir lok leikhlutans.

Guðrún Gróa kom Snæfell í 19-13, gestunum í vil, en Lele Hardy minnkaði muninn í þrjú stig með flautukörfu undir lok fyrsta leikhluta. Staðan því eftir eftir fyrsta leikhluta, 19-16, Snæfell í vil.

Í öðrum leikhluta var allt annað uppá teningnum. Miklu meiri grimmd var í Snæfellsliðinu og þær hirtu hvert frákastið á eftir öðru. Þær juku muninn hægt og rólega og þegar öðrum leikhluta var lokið var munurinn orðinn ellefu stig, 26-37.

Þar spilaði mikið inn í að Lele Hardy komst ekki á blað í öðrum leikhluta og sárafáar í Haukaliðinu stigu upp. Það var þó annað að sjá til þeirra í þriðja leikhluta og þær skoruðu sex stig í röð nánast í upphafi þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í fimm stig, 34-39.

Þristarnir hjá Snæfell fóru þó hver af öðrum niður og þar fóru fremstar í flokki Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Hildur Sigurðardóttir sem hittu afar vel utan af velli. Eftir þriðja leikhluta leiddu svo gestirnir með níu stigum.

Gestirnir virtust ætla sigla sigrinum heim, en frábær kafli Hauka um miðjan fjórða leikhluta snéri leiknum algjörlega. Dagbjört Samúelsdóttir setti niður átta stig á innan við tveimur mínútum og minnkaði muninn í 60-58 þegar sex mínútur voru eftir.

Haukastúlkur jöfnuðu svo leikinn og liðin héldust í hendur. Lokamínúturnar voru æsispenandi og spennan rafmögnuð í Schenkerhöllinni. Þegar fimmtíu sekúndur voru eftir var staðan hnífjöfn, 70-70. Hildur Björg Kjartansdóttir hitti fyrir Snæfell og kom gestunum í 72-70 þegar 33 sekúndur voru eftir af leiktímanum.

Lele Hardy jafnaði svo fyrir Hauka þegar sautján sekúndur voru eftir og gestirnir héldu í sókn. Hildur Sigurðardóttir var hetjan, en hún setti niður tveggja stiga skot og fékk að auki víti sem hún hitti úr, 72-75. Þær þrjár sekúndur sem voru eftir náðu heimastúlkur ekki að nýta sér og gestirnir fögnuðu vel og innilega.

Lele Hardy var stigahæst sem fyrr hjá Haukum með 23 stig og 12 fráköst. Hún hefur þó oft spilað betur, en þá vantaði hjá Haukunum að fleiri myndu stíga upp og taka af skarið. Margrét Rósa tók aðeins við sér í þriðja leikhluta og Dagbjört Samúelsdóttir aðeins í fjórða leikhluta, en fátt var um aðra fína drætti.

Hildur Sigurðardóttir var frábær hjá Snæfell. Hún skoraði hvern þristinn á fætur öðrum úr erfiðum stöðum, en hún skoraði á endanum 30 stig. Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 16, en einnig lögðu Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir lóð sín á vogaskálirnar.

Snæfell getur því tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki á sunnudaginn þegar liðin mætast í þriðja sinn, þá í Stykkishólmi.

Viðtal við Hildi Sig á visir.is
,,Það er ekkert leiðinlegt að koma hingað og vinna sigur. Við höfum gert það nokkrum sinnum í vetur, en þá gerðum við það með fullmannað lið. Núna erum við búnar að verða fyrir smá áföllum, en samt náðum við að halda okkar striki og vinna sigur. Þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Hildur sem átti mjög góðan leik í kvöld og skoraði 30 stig.

,,Baráttan og viljinn var til fyrirmyndar. Við vorum áræðnar í sókninni, varnarleikurinn ekki eins góður. Við slógum eitthvað met í síðasta leik varðandi lágt skor í úrslitakeppni. Auðvitað ætluðum við að reyna halda þeim varnarleik áfram, en þær settu meira niður utan af velli og breyttu aðeins sínum sóknarleik. Það er eitthvað sem við þurfum að fara yfir fyrir næsta leik.“

Aðspurð um hvort hafi farið um hana í fjórða leikhlutanum þegar Haukarnir jöfnuðu svaraði Hildur: ,,Já, það fór um mann. Maður var búinn að vera berjast allan þennan tíma, þá hugsar maður bara um að reyna klára þetta. Ég varð aldrei hrædd. Ég vissi að við gætum klárað þetta.“

,,Það flugu ótrúlegustu skot niður sem er bara skemmtilegt í úrslitakeppni, fullt hús af áhorfendum og verið að sýna leikinn beint. Það sýnir bara hversu magnaður körfuboltinn er.“

,,Við erum með mjög öflugt fólk í kringum okkur og það er búið að vera smala í lið. Fólk er að keyra úr Hólminum á miðvikudegi og þetta er hrikalega flott lið í kringum okkur.“

,,Það er planið að klára þetta á sunnudaginn og koma fyrsta Íslandsmeistaratitli kvenna í Hólminn,“ sagði kampakát Hildur Sigurðardóttir við Vísi í leikslok.

Haukar-Snæfell 72-75 (16-19, 10-18, 22-20, 24-18)

Haukar: Lele Hardy 23/12 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 15, Íris Sverrisdóttir 10, Dagbjört Samúelsdóttir 8, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 2, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 1.

Snæfell: Hildur Sigurðardóttir 30/4 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 16/10 fráköst/5 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 15/7 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 13/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 1/6 fráköst.

Viðtal við Hildi Sig. – Karfan.is
Viðtal við Inga Þór – karfan.is