Magnaður sigur á Stjörnustrákum í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins

Magnaður sigur á Stjörnustrákum í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins

Strákarnir í unglingaflokki sem enduðu í 2. sæti í 2. deild Íslandsmótsins mættu á útivelli Stjörnustrákunum sem enduðu í 1. sæti í 1. deild. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu eftir skrautlegan leik í framlengingu 95-99.

Leikurinn hófst í jafnræði og liðin að þreifa á hvort öðru, í stöðunni 9-10 fær þjálfari Snæfell tæknivíti þegar hann er að skipta leikmanni inná fyrir Stefán Karel sem fékk mjög ósanngjarnar villur á sig og uppúr því náðu Stjörnumenn fimm stiga forskoti sem þeir juku svo í 34-20 eftir fyrsta leikhluta. Stjörnumenn fengu mikið af hraðupphlaupum og nýttu sér það vel.

Í öðrum leikhluta með Stefán Karel að spila vel léku Snæfell/Skallagrímur svæðisvörn, Stjörnumenn settu strax þriggja stiga körfu og náðu 37-20 forystu. Þá náðu strákarnir að loka í vörninni og Þorbergur, Snjólfur og Davíð Guðmunds röðuðu niður þriggja stiga körfum og strákarnir náðu að jafna leikinn 45-45 rétt áður en Dað Lár skoraði lokakörfu fyrri hálfleiks og staðan 47-45 fyrir Stjörnuna í hálfleik. Stefán Karel var kominn með 4 villur í hálfleik en línan í kringum hann var mjög svo undarleg í alla staði.

Í síðari hálfleik léku Snæfell/Skallagrímur maður á mann og náðu yfirhöndinni með þristum frá Þorbergi Helga og Davíð Guðmunds. Strákarnir fóru í 57-64 og 60-69 með góðri spilamennsku þar sem boltinn flaut vel og áræðnin var til staðar. Stefán Karel fékk sína fimmtu villu þegar að 12 mínútur voru eftir af leiknum og var mög ósáttur við sitt hlutskipti. Eftir þriðja leikhluta var staðan 66-73 Snæfell/Skallagrím í vil.

Fjórði leikhluti var skraulegur en okkar menn leiddu 73-78 þegar að tæknivilla kemur á þjálfara Stjörnumanna, strákarnir komast í 75-80 þrátt fyrir að nýta vítaskot sín illa. Stjörnumenn jafna 81-81 eftir mikla baráttu í frákasta baráttunni sem þeir voru að taka yfir. Atli Aðalsteins kom þá með risa þrist og Davíð Ásgeirs rétt á eftir og Snæfell/Skallagrímur yfir 83-87. Stjörnumenn með seiglu jafna leikinn með fjórum vítaskotum 87-87 áður en Atli Aðalsteins kom okkar mönnum yfir . Frábær vörn okkar manna skilaði sér í því að Þorbergur Helgi fékk tvö vítaskot sem bæði rúlluðu uppúr og því þurftu strákarnir að treysta á frábæra vörn. Þeir gerðu það og Stjörnumenn brutu á Snjólf Björnssyni sem kom leiknum í 87-91 þegar um 6 sekúndur voru eftir. Sæmundur Valdimarsson var klókur og læsti höndunum í Þorberg Helga sem fékk dæmda á sig villu áður en boltinn fór í leik og því fengu Stjörnumenn tvö skot og boltann að auki með sömu klukku. Sæmundur setti vítin niður og Daði Lár jafnaði svo leikinn með skoti úr teignum um leið og klukkan rann út, jafn 91-91 og því framlengt.

Stjörnumenn skoruðu fyrstu körfuna en Snjólfur jafnaði með góðu drive á körfuna 93-93. Sigurður Dagur kom Stjörnumönnum í 95-93 áður en Þorbergur Helgi skoraði af harðfylgi og jafnaði 95-95. Frábær vörn Snæfells/Skallagríms skilaði þeim boltanum aftur og Davíð Guðmundsson sem fékk boltann í höfuðið frá öðrum dómara leiksins keyrði mjög sterkt á körfuna og kom Snæfell/Skallagrím yfir 95-97. Stjörnumenn fengu lokasóknina en erfið skot þeirra geiguðu og Snjólfur Björnsson fór á vítalínuna þar sem hann var öryggið uppmálað og nelgdi niður báðum vítaskotum sínum og lokatölur 95-99.

Frábær sigur okkar manna sem börðust frábærlega, lenda undir 17 stigum og sigra eftir framlengdan leik á útivelli. Snjólfur Björnsson var með glæsilega tvöfalda þrennu eða 18 stig, 13 fráköst og 14 stoðsendingar. Strákarnir komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta annaðhvort Tindastól eða KR.

Stigahæstur í liði Snæfell/Skallagríms: Þorbergur Helgi Sæþórsson 23 stig/11 fráköst, Stefán Karel Torfason 23 stig/13 fráköst, Davíð Guðmundsson 22 stig/5 fráköst, Snjólfur Björnsson 18 stig/13 fráköst/14 stoðsendingar, Atli Aðalsteinsson 8 stig/6 fráköst/4 stoðsendingar, Davíð Ásgeirsson 5 stig/4 fráköst, Hjalti Þorleifsson 0 stig, Viktor Marínó Alexandersson 0 stig, Óttar Sigurðsson 0 stig, Guðbjartur Máni Gíslason 0 stig, Kristján Örn Ómarson 0 stig, Kristófer Gíslason 0 stig.

Stigahæstir hjá Stjörnunni: Daði Lár Jónsson með 27 stig/10 stoðsendingar, Sæmundur Valdimarsson 24 stig/14 fráköst, Sigurður Dagur Sturluson 16 stig/4 fráköst, aðrir minna

Stigaskor og öll Tölfræði

Tekið af Skallagrímssíðunni.

Sameiginlegt lið Skallagrímur/Snæfell í unglingaflokki karla spiluðu í kvöld gegn Stjörnumönnum í 8 liða úrslitum íslandsmótsins í unglingaflokki. Stjörnumenn sem enduðu í efsta sæti í A riðli í deildarkeppninni voru taldir sigurstranglegri fyrir leikinn þar sem að okkar menn voru í 8 sæti inn í úrslitakeppnina. Skallagrímur/Snæfell gerðu sér þó lítið fyrir og sigruðu þennan leik 95 – 99 eftir framlengingu. Þar með eru okkar menn komnir í undanúrslit íslandsmótsins sem og í undanúrslit í bikarkeppni kkí. Tölfræði leiksins má sjá hér að neðan. Við hvetjum Fjósamenn Skallagríms sem og aðra Borgnesinga og Hólmara til þess að mæta svo á undanúrslitaleikinn sem að við kynnum síðar þegar nær dregur. Áfram Skallagrímur / Snæfell Karfa