Hildur Björg til USA

Hildur Björg til USA

Landsliðskonan, Hildur Björg Kjartansdóttir, leikmaður Snæfells í Dominosdeild kvenna, hefur verið boðinn styrkur hjá University of Texas-Pan American háskólanum fyrir næsta tímabil, eftir því sem fram kemur á vefsvæði skólans. Hildur Björg var nýverið valin í úrvalslið Dominosdeildar kvenna á lokahófi KKÍ eftir frábært tímabil með Snæfelli í vetur, þar sem hún átti drjúgan þátt í því að félagið landaði Íslandsmeistaratitli á leiktíðinni.

Hildur var með 15,3 stig að meðaltali í leik í vetur og 9,9 fráköst. Hún var 11. í deildinni í framlagi per leik með 18,9; fjórða í deildinni yfir varin skot með 1,29 í leik og fjórða í deildinni yfir +/- tölfræði per leik með 11,4. Í úrslitakeppninni skoraði hún 15,5 stig og tók niður 10,1 frákast.

Hildur var mjög spennt fyrir því að spila fyrir skólann og vonandi myndi það að flytja til Edinburg, Texas hjálpa henni að þroskast sem persóna og leikmaður.

Larry Tidwell, þjálfari kvennaliðs skólans lýsti Hildi sem fjölbreyttum leikmanni sem gæti skotið fyrir utan, rifið niður fráköst og klárað í hraðaupphlaupum. Hann var fullviss um að reynsla hennar sem landsliðskona og fyrirliði myndi verða liðinu dýrmæt á næstu leiktíð.

(Frétt – karfan.is)

Við óskum Hildi Björgu innilega til hamingju og hlökkum til að sjá hana bæta sig enn meira í Bandaríkjunum.