Snæfell meistari meistaranna 2014

Snæfell meistari meistaranna 2014

Íslandsmeistarar Snæfells og bikarmeistarar Hauka mættust í DHL höllinni í kvöld í leik um meistara meistaranna kvenna.

Sveiflukenndur leikur í fyrri hálfleik þar sem Haukum gekk illa að vinna á vörn Snæfells. Bæði lið hittu mjög illa í fyrsta hluta en Snæfell var þó yfir eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Í öðrum hluta snérist þetta við og Haukar fóru að hitta eins og vindurinn. Settu niður 8/20 og þar af 2/6 í þristum. Haukar voru 12 stigum yfir 20-32 í hálfleik.

Strax í seinni hálfleik hertu Snæfellsstúlkur vörnina til muna og náðu að saxa niður forskot Hauka hægt og rólega. Þær hittu 3/7 í þristum í þriðja hluta og einokuðu frákastabaráttuna 16-9. Þriðja hluta lauk með eins stigs forystu Hauka 44-45.

Í fjórða hluta voru Snæfellsstúlkur óstöðvandi. Hittu 11/14 utan að velli og 4/9 nýting Hauka frá þriggja stiga línunni dugði lítið til nema rétt halda þeim inni í leiknum. Liðin skiptust á forystunni á lokamínútunum en þegar 4 sekúndur eru eftir af leiknum brýtur Kristen McCarthy á Lele Hardy í þriggja stiga skoti og sendir hana á línuna með 3 skot í stöðunni 70-67.

Hardy hins vegar brenndi af einu vítaskotinu og möguleikar Haukar runnu þar með út í sandinn.

Lele Hardy skoraði 25 stig og tók 16 fráköst fyrir Hauka. Alls skoruðu 9 leikmenn Hauka í leiknum en næst á eftir Hardy var Sólrún Inga Gísladóttir með 9 stig og 7 stoðsendingar.

Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy atvæðamest með 23 stig og 14 fráköst. Hildur Sigurðardóttir bætti við 20 stigum og 7 fráköstum. Gunnhildur Gunnarsdóttir spilaði einnig afburðavel með 12 stig 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta.

Snæfell er meistari meistara kvenna árið 2014. Til hamingju Snæfell.

umfjöllun og mynd – www.karfan.is