Rólegt miðvikudagskvöld hjá Stelpunum!

Rólegt miðvikudagskvöld hjá Stelpunum!

Í Stykkishólmi mættust Snæfell og Hamar í Dominosdeild kvenna. Helga Hjördís lék ekki með Snæfelli vegna ferðar erlendis en Kristen McCarthy var komin út á gólfið ekkert stress, já út á gólfið vertu hress. Hamarsstúlkur mættu með sama lið og frá síðasta leik sem hafði gefist vel þá.

Leikurinn byrjaði á jöfnum tölum 2-2 og voru liðin í upphitunargír fyrstu 3 mín leiksins, meiri hlaup minni árangur. Snæfell tóku þá stökkið frá Hamri og fóru að klár sínar sóknir vel og virtist sem Hamarsstúlkur hættu varnariðkun um tíma og urðu undir 15-4 þegar þær þurftu tíma í skraf og ráðagerðir. Það virtist gefa þeim eitthvað til að vinna með og stoppa áhlaupið en staðan eftir fyrsta hluta 23-11 fyrir Snæfell þar sem Hildur Sigurðardóttir fékk að leika lausum hala og ver komin með 9 stig.

Hamarsstúlkur virtust stilla betur strengi sína í upphafi annars fjórðungs og settu fyrstu 3 stigin og voru einbeittar í vörninni en hvort það var það eða klaufasendingar Snæfells skal ósagt látið. Adam var ekki lengi í Paradís og tók hvítklæddar heimastúlkur leikinn í sínar hendur og héldu uppteknum hætti og tóku í þetta sinn 12-0 áhlaup og komust í 35-14. Andrina, Þórunn og Salbjörg voru driffjaðrir Hamars og sáu um skotin ásamt sprækri Kristrúnu Rut en skotin voru bara ekki að detta hjá þeim á mörgum köflum með 23.8% í tvistum í fyrri hálfleik og Snæfell hirti fráköstin í 90% tilvika ásamt því að fá endurtekna sénsa eftir góð sóknarfráköst. Snæfell með 33 fráköst og af þeim 14 í sókn en Hamar með 16 fráköst í allt. Staðan í hálfleik 40-22 fyrir Snæfell.

Hjá Snæfelli var Hildur Sig komin með 14 stig og 6 fráköst, Gunnhildur Gunnars 9 stig og Kristen McCarthy 9 stig. Í liði Hamars var Andrina Rendon með 10 stig og Þórunn Bjarnadóttir 8 stig.

Eins og copy /paste frá upphafsmínútum fyrri fjórðunga þá komu Hamarsstúllkur hressar og einbeittar en leið svo að útfalli í stórstreyminu. Snæfell bættu í og hirtu einnig hvert sóknarfrákastið að fætur öðru en þær tóku allt upp í fjögur stykki í sama sóknarflaumnum. Ekki þarf að ræða frekar lánleysi Hamars í leiknum en Rebekka Rán kom Snæfelli 32 stigum yfir með þrist á lokaflautunni í þriðja hluta, 64-30 og í raun leikurinn ráðinn.

Rebekka var aftur á ferð í upphafi fjórða hluta og ætlaði greinilega að láta til sín taka þegar hún fékk mínúturnar til þess. Snæfell hafði náð 18-0 skori 69-30. Hamar skoraði ekki stig fyrr en 4:30 voru eftir af fjórða hluta með þrist frá Þórunni Bjarnadóttur en Snæfell höfðu þá rofið 40 stiga forystuna 74-34 en varð svo 74-35. Lokatölur 76-39 fyrir Snæfell sem jú samkvæmt tölunum voru með talsverða yfirburði í leiknum.

Snæfell: Kristen McCarthy 17/7 frák. Hildur Sigurðardóttir 16/12 frák/5 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/11 frák. Rebekka Rán 8. Hugrún Eva 8/14 frák. María Björnsdóttir 7/7 frák. Berglind Gunnarsdóttir 6/6 stoðs. Alda Leif 5/4 stoðs/5 stolnir. Anna Soffía 0/3 frák. Helena Helga 0.

Hamar: Andrina Rendon 14/7 frák. Þórunn Bjarnadóttir 13/5 stoðs. Salbjörg Sævarsdóttir 10/6 frák. Kristrún Rut 2/4 stoðs. Katrín Eik 0/5 frák. Vilborg Óttarsdóttir 0. Sóley Guðgeirsdóttir 0. Jóna Sigríður 0. Heiða Valdimarsdóttir 0. Helga Vala 0. Jóhanna Herdís 0.

Símon Hjaltalín
Ingi Þór eftir leik

Hallgrímur eftir leik