Sigur í kvöld!

Sigur í kvöld!

Snæfell tók á móti KR í Hólminum og ljóst að KR ætlaði sér ekki að fara úr Hólminum baráttulaust svona í fyrstu. Þær byrjuðu af krafti fyrstu mínútur leiksins og sýndu klærnar. Snæfellsstúlkur leiddu þó naumt 13-9 um miðbik fyrsta hluta og nýttu allmörg færi sín illa. KR voru svo sem ekki að nýta sér það betur þegar á leið. Fyrsti fjórðungur eins og góð upphitunaræfing í hoppum og hlaupum. Björg Einarsdóttir smellti þessum fallega þrist í spjaldið og gleymdi að „kalla það“ en þetta kom KR yfir 17-18 og ljós við enda gangnanna.

Ljósið var frekar dauft við að Snæfell hrapaði úr 55 % í 33% nýtingu og KR var í 27 % og liðin alls ekki með þetta í sóknunum. Snæfell voru komnar í 6-0 þegar annar hluti var hálfnaður og þá komu KR stúlkur með og jöfnuðu 23-23. Það var ferlegt að horfa á nýtingartölur í tveggjastiga skotum Snæfells sem duttu niður í 26% með 8 niður af 32. Eitthvað fór þó í gang á lokamínútum fyrri hálfleiks þar sem heimaliðið stökk frá gestunum 7-0, 36-25. Kristen McCarthy var komin með 16 stig hjá Snæfelli. Simone Holmes 9 stig og Björg Guðrún 8 stig fyrir KR.

Þori varla að segja það, en gæðalitla og leiðinlega leiki sér maður sem betur fer sjaldan, en þessi dansaði alveg fyrir innan línu og með hraða sem ég leyfi mér að segja að leikmenn réðu oft ekki við og urðu sóknir því tilviljunakenndar og klaufalegar hjá báðum liðum. Kannski er ég of harður en það er þá bara þannig þegar liðin hafa skorað 4-2 í seinni hálfleik eftir 5 mínútur en varnarleikurinn var þó með ágætum hjá liðunum. Snæfell leiddi auðveldlega eftir að hafa komist 15 stigum yfir 48-33 og voru meira með þetta í hendi sér þar sem ógn KR var ekki mikil þrátt fyrir, ekki besta dag heimastúlkna sem leiddu 52-35 og 56-23 í fráköstum eftir þriðja hluta.

Snæfellsstúlkur höfðu rifið niður 25 sóknarfráköst en nýttu ekki, oftar en ekki, sinna annan og þriðja séns á boltanum sem gaf þeim einmitt slaka nýtingu. Gestirnir voru því miður lagstir og lítið sem þær gátu lagað stöðuna og í 60-39 og bitkraftuinn fór hverfandi í seinni hálfleik þó Björg Guðrún reyndi að halda taktinum uppi. Snæfell höfðu yfirburða sigur 74-48. Gott að geta sigrað í alslæmum leik sem hefði getað verið stærri og einhverntíma hafa lið verið í meiri vandræðum eftir betri leiki en 30% nýtingu í tveggja stiga, 21 niður af 70 skotum, já SJÖTÍU og 71 frákast, já SJÖTÍU OG EITT, mest eftir þær sjálfar alls 32 í sókn á meðan KR tóku 35 fráköst í allt. Magnaðar tölur úr Snæfellsneskjördæmi.

Snæfell: Kristen McCarthy 21/15 frák. Hildur Sigurðardótti 11/9 frák/6 stoðs. Hugrún Eva 11/13 frák. Gunnhildur Gunnarsdóttir 10/4 frák/4 stolnir. Helga Hjördís 9/8 frák/5 stolnir. María Björnsdóttir 5. Anna Soffía 3. Berglind Gunnarsdóttir 2/10 frák. Rebekka Rán 2/5 frák. Alda Leif 0.

KR: Simone Holmes 23/7 frák. Björg Guðrún 10/7 frák. Þorbjörg Andrea 6/4 frák. Bergþóra Holton 5/5 frák. Anna María 3/3 frák. Þórkatla Dagný 1. Perla Jóhannsdóttir 0. Sara Mjöll 0. Gunnhildur Bára 0. Aníta Eva 0. Sólrún Sæmundsdóttir 0.

Tölfræði leiksins

Símon B Hjaltalín