Strákarnir með flottan sigur!

Strákarnir með flottan sigur!

Eins og væntanlega flesta leiki þá byrja liðin af krafti og engin var undantekningin í leik Snæfells sem tók á móti ÍR í Hólminum. Þetta eru liðin í 8. og 9. Sæti, aðeins tvö stig skildu liðin að og því mikið í húfi. Lítið bar í milli í fyrsta fjórðung en Snæfell var skrefinu á undan en þeir spiluðu án Sigurðar Þorvaldssonar sem þurfti frá að hverfa fyrir upphitun vegna veikinda. Þegar staðan var 10-7 reyndu ÍR að jafna með þrist sem geigaði en á móti fengu þeir tvo þrista í bakið frá Sveini Arnari og staðan fljótt orðin 16-7. Trey Hampton var í góðum gír hjá ÍR og lék Snæfell oft grátt með troðslu og „and1“ körfum er þeir söxuðu á forskot heimamanna sem leiddu svo 23-19 eftir fyrsta fjórðung.
Snæfell hóf leik 6-0 í öðrum hluta og eftir troðslu Chris Woods tók ÍR leikhlé til að skoða sín mál. Heimamenn komu sér fyrir í 10 stiga forskoti 29-19 og voru að halda því yfir annan leikhluta spiluðu nokkuð skynsamlega og vörðust ágætlega en áttu oft erfitt með Hampton á meðan aðrir í ÍR voru oft á köflum tregir til að skjóta en þegar þeir skelltu sér í það þá fór staðan fljótt úr 38-27 í 38-34 sem voru hálfleikstölur. Chris Woods var kominn með 11 stig og 9 fráköst fyrir Snæfell og Stefán Karel 10 stig. Í liði gestana var Trey „illstöðvanlegi“ Hampton kominn með 17 stig og Matthías Orri 6 stig.

Í Gestirnir komu helferskir til leiks og jöfnuðu 38-38 og gerðu þetta strax að jöfnu einvígi. Snæfell teygði sig þá frá ÍR 44-38 en Kristján kom þeim með flottu skoti úr horninu nær 44-40, hefði mátt vera þristur. Snæfellingar hins vegar seigluðust í 53-45 og var Austin Bracey að gera gestunum oft erfitt fyrir með þristum en hann setti þar niður sinn fimmta af fimm. ÍR tók í taumana og hnoðuðu í mjög góð stopp sem gaf þeim gott nesti í sóknir sínar og uppskáru að lenda í stöðunni 53-52 eftir lokaflautuþrist frá Matthíasi Orra.
Yfir komust ÍR í fyrsta skipti í leiknum 53-55 með þrist frá Hamid Dicko og fullkomnuðu svo 13-0 áhlaupið sitt 53-58 með körfu og víti til frá Hampton. Snæfell komst svo yfir 59-58 en ÍR tók við stýrinu og leiddu alveg þar til Austin saxaði á með sínum sjötta þrist af sex 66-68 og Chris jafnaði 68-68. Alveg magnaður fjórði leikhluti hjá liðunum sem skiptust á skori og að leiða en þegar mínúta lifði leiks var staðan 72-73 fyrir ÍR og 74-77 þegar 14 sekúndur voru eftir og Matthías Orri farinn langt með að klára þetta með 7 stigum í röð. Austin Bracey fór á vítalínuna þegar 2 sekúndur voru eftir hitti úr fyrra en seinna skoppaði af hringnum og Chris Woods tappaði boltann í og jafnaði 77-77. Ekki náði Sveinbjörn Claessen að setja niður lokaskotið og framlenging raunin.

Áfram hélt jafnræðið en þegar staðan var 83-81 fyrir Snæfell þá tapaði Chris Woods boltanum í tvígang og ÍR komst yfir 83-87. Chris jafnaði svo á vítalínunni 87-87 og bætti fyrir og önnur framlenging fengin þar. Stefán Karel og Sveinn Arnar voru farnir af velli með 5 villur hvor.

Þegar staðan er 91-92 þurfti Chris Woods að taka neyðarþrist þegar skotklukkarn rann út og ekki besti maðurinn í það verk segja sumir en boltinn datt niður 94-92 og enn og aftur var kappinn ljár í þúfu ÍR ÍR misstu Matthías Orra útaf með 5 villur og munaði gríðalega um og Snæfell hélt rétt á spöðunum og sigldu þessu í land 98-95 og vonbrigði ÍR nokkur eftir alveg gífurlega flottan leik.

Snæfell: Chris Woods 35/23 frák. Austin M. Bracey 30/4 stoðs. Stefán Karel 14/9 frák/4 stoðs. Pálmi Freyr 8/12 frák/5 stoðs. Sveinn Arnar 6. Snjólfur 4/3 frák/3 stoðs. Jóhann Kristófer 1. Almar 0. Jón Páll 0. Sindri 0. Hafsteinn Helgi 0. Viktor 0.

ÍR: Trey Hampton 38/16 frák/5 stolnir. Matthías Orri 27/4 frák/4 stoðs. Sveinbjörn Claessen 9/6 frák/5 stoðs. Kristján Pétur 7/12 frák. Vilhjálmur Teodór 6. Hamid Dicko 5. Daníel Freyr 0. Dovydas Strasunskas 0. Kristófer Fannar 0. Sæþór Elmar 0. Leifur Steinn 0.

Símon B Hjaltalín