Snæfell á toppnum!

Snæfell á toppnum!

Valur og Snæfell mættust í Domino‘s deild kvenna í dag en leikið var í Vodafone höllinni að Hlíðarenda. Þetta var fyrsti leikur 10. umferðar. Fyrir leikinn var Snæfell í efsta sæti deildarinnar ásamt Keflavík með 16 stig en Valur var í 3.-4. sæti með 12 stig eins og Haukar. Leikurinn var jafn og spennandi framan af en Snæfell hafði betur á endasprettinum og sigraði 79-88.

Kristen McCarthy skoraði fyrstu stig leiksins fyrir Snæfell en Fanney Lind jafnaði með tveimur skotum af vítalínunni. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leihluta en Valskonur voru yfirleitt þremur til fimm stigum yfir. Snæfellskonur voru fastar fyrir í vörninni og sóttu hratt á Valskonur í hraðahlaupum. Valskonur áttu erfitt með að sækja upp að körfu Snæfellskvenna og skoruðu mikið með skotum fyrir utan teig á meðan nánast öll stig Snæfellinga í fyrsta leikhluta komu eftir sniðskot en þær voru mjög áræðnar og óhræddar að sækja að körfunni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 25-22 fyrir Val. Hildur Sigurðardóttir opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu en svo komu fimm stig í röð hjá Val og mikill kraftur í leik þeirra. Þær höfðu yfirhöndina í leikhlutanum en náðu aldrei afgerandi forskoti. Þegar 40 sekúndur voru eftir af leikhlutanum voru þær 7 stigum yfir 41-34 en Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði þá þriggja stiga körfu og svo skoraði hún aðra í þann mund sem klukkan gall og staðan eftir fyrri hálfleik 41-39. Seinni hálfleikur var jafn og spennandi eins og sá fyrri og var mikil barátta í báðum liðum. Þeir tæplega 40 áhorfendur sem voru mættir á leikinn létu vel í sér og hvöttu sín lið áfram, en af þessum 40 áhorfendum voru um 10 stuðningsmenn gestanna. Snæfell var yfirleitt skrefi á undan í seinni hálfleik þó forystan hafi aldrei verið mikil. Þegar um ein og hálf mínúta var eftir af leiknum skoraði Berglind Gunnarsdóttir fyrir Snæfell og kom þeim í fimm stiga forystu. Valur fór í sókn og reyndi þriggja stiga skot sem geigaði og Snæfellingar brunuðu í sókn en misstu boltann. Kristen McCarthy vann boltann strax aftur fyrir Snæfell en Joanna Harden braut á henni og fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Snæfell fékk tvö vítaskot í kjölfarið og svo boltann aftur. Kristen McCarthy skoraði úr báðum skotunum og í sókninni sem fylgdi var aftur brotið á henni og skoraði hún aftur úr tveimur vítaskotum. Þarna má segja að leikurinn hafi unnist fyrir Snæfell enda þær komnar með níu stiga forskot og aðeins 45 sekúndur eftir. Valskonur reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og Snæfell vann góðan sigur 79-88.

Stigahæst í liði heimakvenna var Joanna Harden en hún skoraði 30 stig en svo kom Guðbjörg Sverrisdóttir með 15 stig og 11 fráköst og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 10 stig. Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy atkvæðamest með 31 stig og 10 fráköst en Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 19 stig, Hildur Sigurðardóttir skoraði 13 stig og tók 13 fráköst.
Í næstu umferð fara Snæfellingar suður með sjó og heimsækja Keflvíkinga en Valskonur eiga útileik við Breiðablik.

Myndasafn – Torfi Magnússon
Myndasafn – Þorsteinn Eyþórsson

Mynd/texti: Þorsteinn Eyþórsson.

Tölfræði leiksins