Sigur í Hafnarfirði!

Sigur í Hafnarfirði!

Snæfell vann Hauka í toppbaráttuslag í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Leikurinn var mikið fyrir augað, en hann var jafn og spennandi allan leikinn. Snæfell tók völdin í öðrum leikhluta og létu forystuna síðan ekkert af hendi, en lokatölur urðu ellefu stiga sigur; 61-72.

Fyrirfram var búist við hörkuleik og það var heldur betur raunin. Liðin höfðu mæst í nokkrum þrælskemmtilegum leikjum og sá síðasti fór meðal annars í framlengingu á Ásvöllum, þar sem Snæfell hafði að lokum betur eftir æsilegar lokamínútur.

Haukarnir byrjaði að krafti og náði strax undirtökunum og skoruðu meðal annars þrjár fyrstu körfurnar. Snæfell var ekki með í leiknum og Lele Hardy lék á alls oddi. Þær léku sterkan varnarleik og voru yfir 19-15 eftir fyrsta leikhlutann.

Í öðrum leikhlutanum snerist leikurinn. Snæfell byrjaði að spila betri varnarleik og þrátt fyrir að Hildur Sigurðardóttir hafi ekki náð sér á strik þá skipti það litlu máli, Kristin McCarthy var algjörlega frábær og var komin með 21 stig í hálfleik, en Snæfell náðu forystunni síðari hlutann í öðrum leikhluta. Heimastúlkur breyttu stöðunni úr 28-27 í 28-36 sér í vil og þannig var staðan í hálfleik.

Það var ljóst að Haukaliðið þyrfti að spila mun betri sóknarleik í síðari hálfleik ef þær ætluðu sér að vinna toppliðið. Þær voru þó aldrei langt undan og bæði lið voru að spila betri varnarleik heldur en sóknarleik. Haukar náðu að minnka muninn í þrjú stig 48-45 undir lok þriðja leikhluta, en nær komust þær ekki í bili og staðan 53-46 þegar einungis síðasti leikhlutinn var eftir.

Sjö stig í röð frá Hildi Sigurðardóttir í upphafi þriðja leikhluta kom Snæfell í tólf stiga forystu, 60-48, en það var mesti munurinn sem orðið hefði i leiknum. Eftir það sigldi toppliðið og Íslandsmeistararnir sigrinum heim þrátt fyrir pressu frá Haukunum undir lokin. Lokatölur 61-72.

Kristin Denise McCarthy spilaði frábærlega í liði Snæfells og skoraði 29 stig auk þess að taka 15 fráköst. Næst kom Hildur Sigurðardóttir með 18 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar – en einnig spilaði Hildur frábærlega í vörninni gegn Lele Hardy.

Sem fyrr var LeLe Hardy stigahæst hjá Haukum, en hún var með afar myndarlega tvennu; 34 stig og 20 fráköst, auk þess sem hún gaf 4 stoðsendingar.

Með sigrinum nær Snæfell átta stiga forystu á toppnum og er með 28 stig, en Haukar er í þriðja sæti með 22 stig.

Haukar-Snæfell 61-72 (19-15, 9-21, 18-17, 15-19)

Haukar: LeLe Hardy 34/20 fráköst/5 stolnir, María Lind Sigurðardóttir 12/6 fráköst/4 varin skot, Sólrún Inga Gísladóttir 7, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 6/5 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 2/7 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 0/6 stoðsendingar.
Snæfell: Kristen Denise McCarthy 29/15 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 18/8 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/7 stolnir/3 varin skot, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 6, María Björnsdóttir 4/6 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 4, Alda Leif Jónsdóttir 2.

Hér fyrir neðan eru svo viðtöl sem fréttamenn af visir.is tóku eftir leik.

Ívar: Gerðum vitleysur sem eyðilagði allt fyrir okkur
„Þetta var bara lélegt á allan hátt. Vörnin okkar sem er oftar en ekki góð var mjög léleg. Það vantaði alla stemninguna og tal,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, hundfúll í leikslok.

„Flæðið í sókninni var einnig mjög lélegt og við vorum eiginlega ekki bara með í þessum leik. Þó svo að við höfðum náð einhverri forystu í fyrsta leikhluta þá vorum við hikandi og einnig að skjóta illa.“

„Við tókum ekki nein skot og það var hik í öllu sem við gerðum. Í hvert skipti sem við minnkuðum muninn og vorum að komast á run þá gerum við mistök til að mynda brjótum á þeim í lay-uppi eða þær setja niður þriggja stiga skot. Það var saga þessa leiks.“

„Við vorum að minnka muninn í fjögur til fimm stig, en svo gerðum við djöfulsins vitleysu sem eyðilagði allt fyrir okkur.“

„Það vantaði að fleiri stigi upp í sóknarleiknum, en það voru leikmenn eins og Sylvía sem er búinn að vera rosalega góð, en hún náði sér ekki á strik í dag. Hún er nátturlega bara sextán ára og það er ekki hægt að ætlast til að hún sé alltaf best. Hún er búin að vera meidd og það háði henni kannski.“

„Heilt yfir var þetta lélegt og við áttum ekkert skilið úr þessum leik. Útlendingurinn þeirra var frábær og hélt þeim á floti á meða Lele hjá okkur var ekkert að spila vel, hún skoraði mikið en var ekkert að spila svo vel. Það er munurinn,“ sagði Ívar í leikslok.

Hildur: Erum að týnast saman á æfingar
„Barátta og samvinna skóp þennan sigur. Við komum ágætlega samstilltar úr jólafríinu, en í rauninni hafði maður enga hugmynd um hvernig liðið myndi koma til leiks hér í dag,“ sagði Hildur Sigurðardóttir, stórskytta Snæfells, við Vísi í leikslok. Hildur spilaði afar vel í leiknum.

„Við erum svona að týnast saman á æfingar. Við erum ekki allar búsettar í Hólminum þannig við erum ekki búnar að vera spila neitt saman, en þetta gekk,“ sem segir það hafi ekki verið erfitt að koma sér á stað aftur.

„Nei nei, það er fínt að komast á fullt aftur. Það er líka gaman að byrja af krafti með fínan sigur á góðu Hauka liði, þannig það er bara jákvætt.“

„Ég vissi ekkert hvernig liðið kæmi til leiks, en ég veit hvað býr í liðinu og það er barátta og vilji til þess að vinna leiki. Við getum alltaf komið til baka. Það er enginn sem gefst upp í þessu liði.“

„Þetta er frábær Kani sem við erum með, innan sem utan vallar. Hún er yndisleg og hún kemur vel úr sínu fríi. Það er virkilega gaman að spila með þessum leikmanni.“

„Það er sex stiga forysta, en það er nóg eftir. VIð þurfum að halda vel á spöðunum og bæta okkar leik. Við eigum helling inni. Þetta var ekki glæsilegur leikur í adg, en það er jákvætt að vera á toppnum og vita að við getum gert betur,“ sagði Hildur að lokum.

Umfjöllun – visir.is