Flottur sigur hjá stelpunum!

Flottur sigur hjá stelpunum!

„Við hleyptum þeim ansi nálægt okkur á tímabili en höfðum samt alltaf yfirhöndina svo það var fínt að afgreiða þetta þó við værum ekki brjálað ánægðar með spilamennskuna,“ sagði Hildur Sigurðardóttir eftir sigur Snæfells á Val í Domino´s deild kvenna í kvöld. Lokatölur 60-72 fyrir Val í Vodafonehöllinni.

Íslandsmeistarar Snæfells hafa nú unnið 13 deildarleiki í röð og þar af níu útileiki í röð. Hildur var ekki í fyrsta sinn að segja á tímabilinu að hún væri ekki ánægð með spilamennskuna og það eftir tapleik. „Nei þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég segi þetta en sigurinn datt með okkur. Mér finnst við á stundum vera pínu hikstandi og ekki að gera það sem við ætluðum okkur að gera en sem betur fer dugði þetta.“

Snæfell tók á rás í þriðja leikhluta í kvöld, vann hann 12-21 og þó Valskonur hefðu klórað í bakkann undir lokin dugði það ekki til að sinni. Bæði lið voru ekki fullmönnuð, Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells er staddur erlendis og þá var Ragnheiður Benónýsdóttir miðherji fjarverandi sökum meiðsla í liði Vals.

Aðspurð hvort Ingi Þór þjálfari Snæfells væri ekki skyldugur til að kaupa eitthvað handa sínum konum í Fríhöfninni eftir sigurinn sagði Hildur: „Jú hann verður að kaupa eitthvað enda eru margir nammigrísir hérna í kringum mig í rútunni,“ sagði Hildur. Næst á dagskrá hjá Hólmurum er rándýr syrpa gegn Keflavík, fyrst í deild þann 28. janúar og svo strax á eftir í undanúrslitum bikarsins þar sem farseðillinn í Laugardalshöll er á boðstólunum. Því vill bregða við að lið mætist í deild og bikar á skömmum tíma og skipti þá oft bróðurlega á milli sín niðurstöðu viðureignanna. Verður það niðurstaðan í rimmum Snæfells og Keflavíkur sem eru framundan?

„Ég er ekkert að skoða söguna, þetta fer einhvern veginn.“

Kristen McCarthy landaði tröllatvennu í kvöld með 21 stig og 20 fráköst en hún var einnig með 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hjá Val var Taleya Mayberry með 25 stig og 5 fráköst.

Tölfræði leiksins
Myndasafn – Torfi Magnússon
Mynd – Torfi Magnússon