Hrikalega svekkjandi tap!

Hrikalega svekkjandi tap!

Bjössi á bensó eins og við flest þekkjum hann skrifaði þennan skemmtilega pistil um leikinn í gær og Steini Eyþórs smellti myndum. Takk kærlega fyrir okkur Hólmarar 🙂

Það er alltaf stuð og stemning þegar Snæfell frá Stykkishólmi heimsækir KR-inga í Vesturbæinn enda með eindæmum sterk og góð vináttubönd á milli þessara tveggja stórvelda í körfuboltanum. Leikurinn var ólíkt mikilvægari fyrir Snæfellinga sem standa í gríðarlegri baráttu að komast í úrslitakeppnina þar sem hver leikur er eins og úrslitaleikur. Staða liðanna ólík í deildinni…KR eitt á toppnum og ósigrað á heimavelli á meðan Snæfell er í 6.-8.sæti ásamt Keflavík og Haukum. Áhangendur Snæfellinga mættu með þá von í brjósti að sitt lið kæmi til með að standa í ógnarsterku liði KR, minnugir þess að þeirra menn voru ekki langt frá því þegar liðin áttust við fyrr í vetur. Þá sigu KR-ingar, sem í umræddum leik spiluðu í Sæfellsbúningum vegna búningavandræða, fram úr í blálokin og kreistu fram sigur. Stuðningsmenn KR-inga vonuðust hins vegar eftir skemmtilegum leik, fullvissir um lokaniðurstöðuna og skyldi svo sem engan undra það, þar sem þeir röndóttu eru eins og áður sagði taplausir í DHL-höllinni!

Byrjunarlið KR var ógnarsterkt á að líta, Mike, Helgi, Darri, Brynjar og Pavel á meðan meðan vinir okkar að Vestan tefldu fram hinum vænstu drengjum, þeim Svenna, Austin, Chris, Stebba og Sigga Þorvalds. Leikurinn hefst á góðum nótum fyrir gestina þegar Austin Magnús opnar þetta með þrist…en þá eru góðu nóturnar liggur við upptaldar fyrir Snæfellinga í fyrri hálfleik því nú komu feilnóturnar á færibandi. Ákveðnir KR-ingar taka völdin, fastir fyrir í vörn og sókn og þó enginn ákveðnari en Mike Craion sem fer hálfpartinn hamförum í leikhlutanum. Snæfellingar eiga í miklum vandræðum með kappann sem skorar fyrstu 13 stig heimamanna og kemur þeim í 13:7 um miðbik leikhlutans. Sóknarleikur gestanna afar slakur og álíka ferskur og súrmatur, öfugt við heimamenn sem voru ákveðnir í flestum sínum aðgerðum.aðgerðum. Ingi tekur leikhlé þegar 3 mín eru eftir af leikhlutanum og stöðunni 19:10 í þeirri tilraun að stöðva þessa óheillaþróun. Duracellkanínunni Snjólfi Björns er kastað inn á til þess að stemma stigu og við það breytist leikurinn í ping-pong fram og til baka, mikill hraði en lítið skorað. Staðan eftir 1.leikhluta 23:12 og Mike Craion með 15 stig fyrir KR, hefði án efa skorað meira en var tekinn út af þegar 3:30 voru eftir.

Þórir hinn ungi Þorbjarnarson opnaði 2.leikhluta með góðri körfu og við bættust 5 stig til viðbótar hjá svarthvítum og staðan orðin frekar svarthvít fyrir Snæfellinga 30:12. Ingi tekur leikhlé og ekki vanþörf á, ekki steinn yfir steini í leik Hólmara. Finnur Freyr skipar sínum mönnum að láta nú kné fylgja kviði því nú hlóðu heima menn í pressuvörn um allan völl. Pressan var mikil og góð frá heimamönnum en gerði vont verra hjá gestunum sem hittu illu og töpuðu boltanum oft klaufalega frá sér. Fyrstu stig Snæfells koma þegar 4 mín eru liðnar af leikhlutanum og KR kemst í 40:17 2 mínútum seinna. Þá var eins og vekjaraklukkan hans Chris Woods hefði loksins ákveðið að hringja, því okkar maður vaknaði af værum blundi, varð mun fastari fyrir og fór að salla niður körfum. Kappinn hlóð m.a.s. í alvöru troðslu og setti 12 stig í leikhlutanum, reyndar í fyrri hálfleik öllum þar sem hann var stigalaus í fyrsta leikhluta…enda sofandi eins og áður sagði. Brilli var öflugur í leikhlutanum með 11 stig þar af þrjá þrista. Staðan í hálfleik 45:28. Craion með 20, Brynjar 11,Pavel 6 aðrir minna. Hjá Snæfell var Woods með 12.

Ég hef Inga grunaðan um að hafa komið með fulla íþróttatösku af harðfiski úr Stykkishólmi, þessum sjúklega góða og gott ef ekki hákarl úr Bjarnarhöfn…og gefið strákunum ríflegan skammt í hálfleik. Hvað svo sem að gert var í búningsklefa gestanna þá virkaði það, því það var allt annað og ákveðnara lið Snæfells sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Austin byrjar þetta með þriggja líkt og í fyrri hálfleik og setur tóninn. Snæfellingar sem eru nú allir aðrir, ákveðnir og fastir fyrir, saxa svo jafnt og þétt á forskot heimamanna. Siggi Þorvalds sem hafði farið fyrir sínum mönnum á þessum góða kafla, jafnaði leikinn 55:55 með ísköldum þrist þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum og allt ætlaði um koll að keyra í höllinni. KR-ingar voru ekki af baki dottnir og svaraði Darri með öðrum þrist um hæl en ákveðnir Snæfellingar héldu áfram að keyra á KR-inga og komast yfir 59:61 þegar 40 sek voru eftir. KR kemur með tvöfalt andsvar og ná tveggja stiga forskoti þegar 4 sekúndur eru eftir, en Snæfellingar grýta boltanum fram á gamla refinn Pálma Sigurgeirs sem svellkaldur setur þrist á síðasta sekúndubrotinu þannig að Snæfell leiðir inní síðasta leikhlutann 63:64

Eftir töluvert japl, jaml og fuður opnar Pálmi lokaleikhlutann með sálfræðilega sterkum þristi. Pavel svarar fyrir KR með góðri tveggjastigakörfu, borderlæn þriggja. Spennustigið er orðið hátt og áhorfendur að fá eitthvað fyrir peninginn. Snæfell að spila fantafyrirmyndarvörn á þessum kafla og ekki oft sem maður sér sóknarleik meistaranna svo ráðvilltan sem raun bara vitni. Pálmi átti svo “múv” leiksins er hann var að taka innkast, KR-ingar að dekka vel og engan lausan mann að sjá, þá notaði gamli bara bossann á einum KR-ingnum sem batta, fékk boltann aftur, brotið á honum, villa og 2 skot…smá reynsla þarna og uppskar hann klapp frá báðum liðum fyrir hugmyndaflugið. Snæfellingar halda uppteknum hætti, eru ákveðnir og komnir í góða stöðu þegar 3:30 eru eftir, fimm stigum yfir 71:76 og eru með boltann. En þá snérist þeim gæfan. Siggi Þorvalds fær dæmdan á sig ruðning og Pavel minnkar muninn í 3 stig. Svo er skorað á víxl og staða 75:78 fyrir Snæfell og Snæfell með boltann. Þá gerist umdeilt atvik. Leikmaður KR slær boltann út af og það sáu flestir í húsinu en KR-ingar fá engu að síður dæmt innkastið. Við það spennist hinn dagfarsprúði Pálmi Freyr Sigurgeirsson svo upp að hann mátti til með að láta annars ágæta dómara leiksins vita af ósanngirni þessari á frekar háværan máta. Uppskeran var tæknivilla og vilja sumir meina að “the momentum” hafi sveiflast yfir til KR á þessum tímapunkti. Pálmi kemur Snæfelli í 76:80, Helgi Már svarar með þrist, Snæfell missir boltann, Pavel skorar og KR kemst yfir 81:80…stóru skotin að detta hjá KR núna. Helgi setur aftur þrist, og svo lokar Brynjar dæminu með “treidmarkinu” tandurhreinn þristur að hætti hússins og leikurinn fjarar út. 89:83

Frábær barátta hjá Snæfelli í seinni hálfleik þar sem þeir áttu raunhæfan alvöru séns að sigra meistarana á þeirra eigin heimavelli. KR-ingar á sama máta flottir að stíga upp og gera það sem gera þarf til þess að klára leikinn. Ekki í fyrsta skipti sem þeir leika þann leik í vetur og er það merki um þau gæði sem þetta lið býr yfir. Hjá KR var Craion bestur með 26 stig/12 fráköst og Brynjar Þór með 19 stig þar af 5/8 í þristum. Hjá Snæfelli var Woods öflugur með 27 stig og 12 fráköst. Gömlu mennirnir Sigurður Þorvalds og Pálmi Freyr voru flottir með 19 stig hvor.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun – Þorbjörn Geir Ólafsson
Myndasafn – Þorsteinn Eyþórsson